Sigrún Jóhanna Þorsteinsdóttir

Færslur: 2009 Júlí

27.07.2009 23:55

50 + 50 ára í Kálfsskinni

Hjónin Jón Ingi Sveinsson og Guðbjörg Inga Ragnarsdóttir eru 50 ára 2009
(Jónsi og Gugga).  Þau héldu upp á 100 ára afmælið (50+50)
laugardagskvöldið 25. júlí með hlöðuballi í Kálfsskinni.
Þar var góður matur og drykkur, skemmtun og dans.
Setti inn myndir sem ég tók þar. Myndirnar eru misgóðar en segja sína sögu.


21.07.2009 00:52

Forsetaembættð

Þessi yfirlýsing frá Bergþóri Pálssyni er á Facebook og mér finnst hann komast vel að orði.

Kæru vinir!

Það er mér mikill heiður að einhverjum skuli hafa dottið í hug að orða mig við mesta virðingarembætti þjóðarinnar, hvað þá að mörg hundruð manns hafi skrifað sig í hvatningarhópinn "Bergþór á Bessastaði" nú að morgni 23. mars. Fyrir það traust þakka ég heilshugar.

Satt að segja veit ég ekki hvaðan á mig stendur veðrið, því að forsetaframboð er alls ekki á dagskrá hjá mér, enda var hópurinn settur á laggirnar af velunnurum mínum án þess að ég hefði þar hönd í bagga.

Fyrst embættið ber á góma, langar mig að segja frá því að í fyrra tók ég þátt í flutningi á bráðskemmtilegu tónverki eftir Karólínu Eiríksdóttur, en texti verksins var stjórnarskráin. Þá hugsaði ég allmikið um eðli forsetaembættisins, þó alls ekki með framboð í huga!

Það vakti athygli mína hve gríðarlegu rými er eytt í forsetaembættið í stjórnarskránni. Samt virðast alltaf vera að koma upp álitamál um það hvað forsetanum beri að gera og hvað ekki. Hlutverk forsetans verður að vera skýrt í stjórnsýslunni og því verður að taka af öll tvímæli um þau efni áður en gengið verður til kosninga eftir þrjú ár.

Að því slepptu á forsetaembættið að vera ódýrt og einfalt í sniðum að mínu viti. Við eigum hvorki að sýnast vera kóngar né stórveldi á veraldlega vísu fyrir umheiminum. Við erum það ekki og ættum miklu fremur að vera stolt af því að vera þau sem við erum; lítil þjóð, harðger, dugleg, með ríka réttlætiskennd og samstöðu sem líkist stórri samheldinni fjölskyldu þegar eitthvað bjátar á. Og margt fleira.

Forsetinn á því að leitast við að halda tildri í lágmarki. Hins vegar ætti þjóðin að hafa þá tilfinningu að Bessastaðir séu hlýlegt og látlaust heimili hennar, ekki bara forsetans.

Ennfremur þarf forsetinn að hvetja til dáða af eldmóði og uppbyggilegri bjartsýni, sem þó byggist á skynsemi og góðri dómgreind. Glaðlynd og upplitsdjörf þjóð með heilbrigða, jákvæða sjálfsmynd vinnur betur saman í blíðu sem stríðu.

Vonandi hljómar þetta ekki eins og framboðsræða. Það er ekkert kosninga-"eggjahljóð" í mér!

Aftur á móti þykir mér innilega vænt um þann hlýhug og vináttu sem þið hafið sýnt mér.

Með bestu kveðju,
Bergþór Pálsson

14.07.2009 23:14

Ferðalag okkar í júlí 09

Við lögðum af stað laugardaginn 5. júlí í Stóruferð Flakkara og ókum í Ketilás í Fljótum þar sem við hittum hina húsbílafélagana í ferðinni og auðvitað var dansað í Ketilási um kvöldið.

Á sunnudaginn fórum við með pabba og Huldu til Siglufjarðar og heimsóttum Kjartan og Brynju sem tóku vel á móti okkur þó að við birtumst óvænt á tröppunum hjá þeim.

Síðan var ekið til Sauðárkróks og gist þar í 2 nætur. Veðrið var æðislegt og heitu nuddpottarnir meiriháttar góðir svo við fórum í pott báða morgnana.

Næst var það Skagaströnd og ekki var veðrið síðra þar.
Sól og blíða og einhverjir ætluðu að gista aðra nótt þar, því þeir tímdu ekki að fara þaðan strax.

Við héldum áfram og næsta nótt var á Laugabakka í Miðfirði og þar var spilað bingó og svo dansað á eftir.
Við dvöldum þar fram eftir fimmtudeginum í sólinni en sögðum svo skilið við Flakkara og héldum áleiðis suður á bóginn og ókum yfir Mosfellsheiði, meðfram Þingvallavatni og enduðum á tjaldstæði við  fossinn Faxa í Tungunum.

Á föstudaginn fórum við svo á ættarmót niðja Önnu Halldórsdóttur og Páls Guðmundssonar sem haldið var um helgina í Goðalandi í Fljótshlíð á Suðurlandi.

Eftir ágæta helgi með svalandi golu en sól að mestu þá ókum við lengra suður á bóginn og skoðuðum okkur um á Stokkseyri og Eyrarbakka og enduðum í Þorlákshöfn á nýju tjaldstæði við flotta sundlaug og íþróttaaðstöðu.
Þar borðuðum við mjög góða pizzu um kvöldið og sváfum vel þar eins og yfirleitt í hjólhýsinu okkar sem í þessari ferð er dregið af húsbílnum sem er kominn neð kúlutengi og þannig stækkum við bílinn um meira en helming.

Við vorum síðustu nótt á planinu hjá Ingu og Inga í Innri-Njarðvík og nú erum við lögð af stað áleiðis norður aftur og dveljum nú (þriðjudagskvöldið 14. júlí) við Svignaskarð í Borgarfirði og reiknum með að koma heim í Eyjafjörðinn á morgun.

Myndir frá þessari för verða settar inn á síðuna við fyrsta tækifæri eftir að ég kem heim.
  • 1
Flettingar í dag: 294
Gestir í dag: 92
Flettingar í gær: 62
Gestir í gær: 16
Samtals flettingar: 249702
Samtals gestir: 28557
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 05:58:24

Nafn:

Sigrún Jóhanna Þorsteinsdóttir

Afmælisdagur:

14. júní

Staðsetning:

Eyjafjörður

Faðir:

Þorsteinn Marinósson

Móðir:

Fjóla Kristín Jóhannsdóttir

Um:

Velkomin á síðuna mína.

Eldra efni

Tenglar