Sigrún Jóhanna Þorsteinsdóttir

08.11.2009 02:20

Heldri kona og tölvunámið

Eldri kona sem hafði unnið til fjölda ára á saumastofu hafði loksins haft sig út í að skrá sig á tölvunámskeið. Hún dreif sig síðan í Elko og keypti sér nýja tölvu til að æfa sig á heima áður en námskeiðið byrjaði. Viku síðar fór hún aftur í Elko og kvartaði við Gunna afgreiðslumann og sagði að fótstigið sem fylgdi tölvunni virkaði illa. Hvaða fótstig? spurði Gunni hissa. Þetta hérna sagði konan og rétti honum músina.... :o)

Tók þennan af síðunni hjá Dæda, en hann setti hann á Facebook


05.11.2009 17:52

Aspartam ekki hættulegt.

Segir Ólafur Gunnar Sæmundsson í grein eftir Baldur Guðmundsson í Dv.

Svokallaðir diet drykkir eða sykurlausir drykkir hafa fyrir löngu rutt sér til rúms á Íslandi. Ólafur segir að með tilvist þeirra hafi þeir, sem þurfi að passa upp á fjölda hitaeininga en vilju fá eitthvað annað bragð en af vatninu og mjólkinni val.

"Þeir geta þá leitað í diet drykki þar sem hitaeiningarnar eru nánast engar," segir hann.

Ólafur segir furðulegt að fylgjast með umræðunni um diet drykkina. Sérstaklega gervisætuefninu aspartam, sem sé það aukaefni í matvælum, sem mest hafi verið rannsakað af þeim öllum.

"Ef það væri einhver hætta á því að efnið myndi leiða til krabbameins í heila eða jafnvel blindu hlyti það að sjást í mælingum á tíðni slíkra sjúkdóma.

Það er ekki svo.
Eftirlitsstofnanir hafi í meira en 20 ár sýnt fram á að þessi efni séu skaðlaus.

"Það er hægt að vitna í eina og eina músarannsókn sem sýnir fram á skaðsemi í músum.
Alltaf þegar þetta hefur verið rannsakað af óhlutdrægum aðilum hefur komið í ljós að þessar rannsóknir standa ekki á föstum grunni," segir hann.

Hann segir enn fremur að meginvandi Íslendinga sé samviskubitið: "Við erum alltaf að drepast úr samviskubiti og höldum alltaf að við séum að borða eitthvað rosalega óhollt."

Sem sagt: Það er ekki Aspartam sem veldur skjálfta, hjartsláttartruflunum og magaverkjum, heldur er það koffínið eins og þeir þekkja sem drekka mikið kaffi og te.

Ólafur Gunnar er sko minn maður þar sem ég er ein af þessum sem er að drepast úr samviskubiti yfir að drekka töluvert af Coke Light.
Ég drekk ekki kaffi eða te (nema koffínlaust ávaxtate) og ég þarf sökum ofnæmis að neita mér um margt í mat og mér finnst ekki nóg að drekka bara vatn þó að það sé yfirleitt gott vatnið hér á Íslandi.



30.10.2009 00:54

Gott í kreppunni..

Ekki vandamál að flytja eins og eitt stykki nautgrip á milli staða í henni Afríku   emoticon


28.09.2009 13:44

Haustlitirnir og fyrsti snjórinn 2009

Tók myndir hér í nágrenninu af haustlitunum og fleiru og snjónum sem kom (og fór aftur) á sunnudaginn 27 september 2009.

Ég á reyndar nokkrar myndir af haglélinu sem skall á okkur í júlí og þá sá svo mikið á blómunum að þau náðu sér ekki almennilega upp aftur í sumar.

Árið 1981 var ófært fyrir framhaldsskólakrakkana úr sveitunum að komast til Akureyrar eftir páskafrí.
Það var ekki einu sinni fært fyrir mjólkurbílana í nágrenni Akureyrar í töluverðan tíma.
Síðustu helgina í september fór að snjóa, og þann snjó tók ekki upp allan veturinn 1981 - 1982.


19.09.2009 20:44

Árshátíð á Hofsósi

Haustfundur og árshátíð Flakkara var á Hofsósi um síðustu helgi.
Það var vel mætt og árshátíðarmaturinn var góður og frábært að heyra söng systranna og einnig sönginn með Höllu ömmu þeirra.

Ég setti inn myndir sem ég tók um helgina og vona að fólk hafi gaman af að skoða þær, því allt er þetta til gamans gert og sumir stilla sér upp fyrir myndavélina eða PÓSA eins og unga fólkið segir.

Ef einhver er óánægður með mynd af sér þá vona ég að sá hinn sami hafi samband annað hvort í tölvupósti eða síma (ég er í símaskránni) og ég mun eyða þeirri mynd út.


09.09.2009 15:07

Sumarveður í Eyjafirði

Sumarveður í Eyjafirði
Indælis veður er nú hér á Akureyri og spáin er meiriháttar góð fyrir helgina, allt að 19° C á sunnudaginn á Norðurlandi.
Og við erum að fara á Árshátíð Flakkara sem verður haldin á Hofsósi, sem er auðvitað á Norðurlandinu.
Sennilega verður það síðasta útilegan þetta árið, sem er búið að vera fínt ferðaár hjá okkur.
Fúsi er að slá garðinn heima, spurning hvort það sé síðasti sláttuinn í sumar.

20.08.2009 01:16

Á suðurlandinu ágúst 09

Er í sumarfríi þessa viku og lögðum við af stað til Reykjavíkur seinnipart sunnudagsins 16. ágúst.
Mánudagsmorguninn fór í skoðun hjá Jóhannesi Kára augnlækni og gekk það vel.
Sjónin hefur breyst hjá mér eins og ég vissi nú sjálf og ný gleraugu komin í pöntun hjá
PROFIL OPTIK (að sjálfsögðu) á Laugarvegi 24.

Hjólhýsinu var plantað á planinu hjá Jóni og Gunnu í nágrenni við Glæsibæ þar sem augnlæknastofan er til húsa og sváfum við þar í 2 nætur og fluttum okkur svo í Laugardalinn á tjaldstæðið þar. 
Eftir að hafa farið í heita pottinn og skolað af okkur ferðarykið þá tókum við okkur upp og héldum áleiðis til Njarðvíkur þar sem við gistum núna hjá Ingu systir.
Við vorum drjúgan tíma á leiðinni, því við komum við í IKEA og gáfum okkur góðan tíma til að skoða okkur um þar. 

Veðrið hefur leikið við okkur og þetta hafa bara verið notalegir dagar hjá okkur.
Spurning hvað við gerum á morgun því veðurspáin er ekki góð til aksturs með hjólhýsi.


 

15.08.2009 13:47

Fiskidagar á Dalvík 09

Vorum á Dalvík á Fiskidögum og áttum þar góða helgi í plássinu sem við höfum haft hjá Snjólaugu og Jóni við Böggvisbraut. Þetta er þriðja árið sem við holum okkur niður þar og þrengir að okkur með hverju ári sem líður, svo að Fúsi fór með hjólhýsið úteftir miðvikudeginum áður.
Setti inn myndir þaðan, en þar sem ég festi kortið úr myndavélinni minni í kortalesaranum í tölvunni á laugardeginum, þá á Fúsi heiðurinn af sumum myndunum.



27.07.2009 23:55

50 + 50 ára í Kálfsskinni

Hjónin Jón Ingi Sveinsson og Guðbjörg Inga Ragnarsdóttir eru 50 ára 2009
(Jónsi og Gugga).  Þau héldu upp á 100 ára afmælið (50+50)
laugardagskvöldið 25. júlí með hlöðuballi í Kálfsskinni.
Þar var góður matur og drykkur, skemmtun og dans.
Setti inn myndir sem ég tók þar. Myndirnar eru misgóðar en segja sína sögu.


21.07.2009 00:52

Forsetaembættð

Þessi yfirlýsing frá Bergþóri Pálssyni er á Facebook og mér finnst hann komast vel að orði.

Kæru vinir!

Það er mér mikill heiður að einhverjum skuli hafa dottið í hug að orða mig við mesta virðingarembætti þjóðarinnar, hvað þá að mörg hundruð manns hafi skrifað sig í hvatningarhópinn "Bergþór á Bessastaði" nú að morgni 23. mars. Fyrir það traust þakka ég heilshugar.

Satt að segja veit ég ekki hvaðan á mig stendur veðrið, því að forsetaframboð er alls ekki á dagskrá hjá mér, enda var hópurinn settur á laggirnar af velunnurum mínum án þess að ég hefði þar hönd í bagga.

Fyrst embættið ber á góma, langar mig að segja frá því að í fyrra tók ég þátt í flutningi á bráðskemmtilegu tónverki eftir Karólínu Eiríksdóttur, en texti verksins var stjórnarskráin. Þá hugsaði ég allmikið um eðli forsetaembættisins, þó alls ekki með framboð í huga!

Það vakti athygli mína hve gríðarlegu rými er eytt í forsetaembættið í stjórnarskránni. Samt virðast alltaf vera að koma upp álitamál um það hvað forsetanum beri að gera og hvað ekki. Hlutverk forsetans verður að vera skýrt í stjórnsýslunni og því verður að taka af öll tvímæli um þau efni áður en gengið verður til kosninga eftir þrjú ár.

Að því slepptu á forsetaembættið að vera ódýrt og einfalt í sniðum að mínu viti. Við eigum hvorki að sýnast vera kóngar né stórveldi á veraldlega vísu fyrir umheiminum. Við erum það ekki og ættum miklu fremur að vera stolt af því að vera þau sem við erum; lítil þjóð, harðger, dugleg, með ríka réttlætiskennd og samstöðu sem líkist stórri samheldinni fjölskyldu þegar eitthvað bjátar á. Og margt fleira.

Forsetinn á því að leitast við að halda tildri í lágmarki. Hins vegar ætti þjóðin að hafa þá tilfinningu að Bessastaðir séu hlýlegt og látlaust heimili hennar, ekki bara forsetans.

Ennfremur þarf forsetinn að hvetja til dáða af eldmóði og uppbyggilegri bjartsýni, sem þó byggist á skynsemi og góðri dómgreind. Glaðlynd og upplitsdjörf þjóð með heilbrigða, jákvæða sjálfsmynd vinnur betur saman í blíðu sem stríðu.

Vonandi hljómar þetta ekki eins og framboðsræða. Það er ekkert kosninga-"eggjahljóð" í mér!

Aftur á móti þykir mér innilega vænt um þann hlýhug og vináttu sem þið hafið sýnt mér.

Með bestu kveðju,
Bergþór Pálsson

14.07.2009 23:14

Ferðalag okkar í júlí 09

Við lögðum af stað laugardaginn 5. júlí í Stóruferð Flakkara og ókum í Ketilás í Fljótum þar sem við hittum hina húsbílafélagana í ferðinni og auðvitað var dansað í Ketilási um kvöldið.

Á sunnudaginn fórum við með pabba og Huldu til Siglufjarðar og heimsóttum Kjartan og Brynju sem tóku vel á móti okkur þó að við birtumst óvænt á tröppunum hjá þeim.

Síðan var ekið til Sauðárkróks og gist þar í 2 nætur. Veðrið var æðislegt og heitu nuddpottarnir meiriháttar góðir svo við fórum í pott báða morgnana.

Næst var það Skagaströnd og ekki var veðrið síðra þar.
Sól og blíða og einhverjir ætluðu að gista aðra nótt þar, því þeir tímdu ekki að fara þaðan strax.

Við héldum áfram og næsta nótt var á Laugabakka í Miðfirði og þar var spilað bingó og svo dansað á eftir.
Við dvöldum þar fram eftir fimmtudeginum í sólinni en sögðum svo skilið við Flakkara og héldum áleiðis suður á bóginn og ókum yfir Mosfellsheiði, meðfram Þingvallavatni og enduðum á tjaldstæði við  fossinn Faxa í Tungunum.

Á föstudaginn fórum við svo á ættarmót niðja Önnu Halldórsdóttur og Páls Guðmundssonar sem haldið var um helgina í Goðalandi í Fljótshlíð á Suðurlandi.

Eftir ágæta helgi með svalandi golu en sól að mestu þá ókum við lengra suður á bóginn og skoðuðum okkur um á Stokkseyri og Eyrarbakka og enduðum í Þorlákshöfn á nýju tjaldstæði við flotta sundlaug og íþróttaaðstöðu.
Þar borðuðum við mjög góða pizzu um kvöldið og sváfum vel þar eins og yfirleitt í hjólhýsinu okkar sem í þessari ferð er dregið af húsbílnum sem er kominn neð kúlutengi og þannig stækkum við bílinn um meira en helming.

Við vorum síðustu nótt á planinu hjá Ingu og Inga í Innri-Njarðvík og nú erum við lögð af stað áleiðis norður aftur og dveljum nú (þriðjudagskvöldið 14. júlí) við Svignaskarð í Borgarfirði og reiknum með að koma heim í Eyjafjörðinn á morgun.

Myndir frá þessari för verða settar inn á síðuna við fyrsta tækifæri eftir að ég kem heim.

24.06.2009 00:13

Stolið af Facebook

Þessar konur
Ég var á leiðinni í vinnuna í morgun þegar ég leit yfir á hina akreinina og sá þá konu í glænýjum Subaru á 90 kílómetra hraða með andlitið klesst upp við baksýnisspegilinn að reyna að draga "ælæner" í kringum augun á sér! Ég horfði frá henni í nokkrar sekúndur en þegar ég leit á hana aftur var hún komin hálfa leið inn á mína akrein og enn að reyna að mála sig.
Mér brá svo hrottalega að ég missti rafmagnsrakvélina mína og hún sló kleinuhringinn úr hinni hendinni á mér. Í látunum við það að rétta bílinn minn af með hnjánum á stýrinu datt farsíminn af eyranu á mér ofan í kaffibollann sem ég var með á milli læranna og við það missti ég samband við mikilvægan viðskiptavin.
Þessar konur kunna ekkert að keyra!


16.06.2009 23:48

Aldan-Voröld

Kvenfélagið Aldan-Voröld í Eyjafjarðarsveit fór í vorferð 6. júní 2009.
Við fórum í Ólafsfjörð, á Dalvík, í Svarfaðardal, á Litla-Árskógssand og í Hrísey.   Við skoðuðum bjórverksmiðjuna Kalda á Árskógssandi og fórum og borðuðum afbragðs mat í Hrísey.
Setti inn myndir frá þessari ferð.


11.06.2009 01:45

Útskriftarsýning

Fórum út í Arnarnes sunnudaginn 7. júní 2009 og skoðuðum útskriftarsýningu Eyglóar Jóhannesdóttur, en hún var að útskrifast frá myndlistarskóla Arnar Inga.

Við kíktum líka í galleríið hennar.

Síðan renndum við niður á Hjalteyri og fengum okkur af kaffihlaðborði á Kaffi Lísu, og skoðuðum síðan sýningu í Verksmiðjunni sem heitir Hertar sultarólar.

Setti inn myndir frá þessum sýningum.




06.06.2009 01:06

Flakkaraferð og Myndlistarsýning

Vorferð Flakkara var í Heiðarbæ um hvítasunnuhelgina og fórum við þangað á laugardaginn þegar við höfðum skoðað síðari nemendasýninguna í Myndlistarskóla Arnar Inga í Klettagerði.
Við komum svo við á Húsavík hjá Stellu og fjölskyldu á heimleiðinni á mánudeginum.
Setti inn myndir sem voru teknar á sýningunni og í Heiðarbæ.
Flettingar í dag: 59
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 109
Gestir í gær: 24
Samtals flettingar: 235255
Samtals gestir: 26500
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:28:21

Nafn:

Sigrún Jóhanna Þorsteinsdóttir

Afmælisdagur:

14. júní

Staðsetning:

Eyjafjörður

Faðir:

Þorsteinn Marinósson

Móðir:

Fjóla Kristín Jóhannsdóttir

Um:

Velkomin á síðuna mína.

Eldra efni

Tenglar