Sigrún Jóhanna Þorsteinsdóttir

14.02.2011 15:14

Niðjatal Einars Ásmundssonar

Nú eiga afkomendur Einars Ásmundssonar að geta skoðað Niðjatalið frá 2005 hér á síðunni.
Þar sem ekki er æskilegt að hver sem er hafi aðgang að þessum upplýsingum sem eru í Niðjatalinu þarf aðgangsorð til að opna síðuna. Þeir ættingjar mínir og aðstandendur þeirra sem vilja skoða geta beðið um aðgangsorðið annað hvort hér á síðunni eða sent mér tölvupóst til að fá meiri upplýsingar. 

29.01.2011 14:34

Ektamaki

"Ektamaki illa reynist þú." 
 Undur blítt svo mælti konan trú. 
"Þú klórar hvorki kvígunni né mér. 
"Þú klórar alltaf bara sjálfum þér." 

Höfundur: Þorsteinn Magnússon. 

28.01.2011 01:10

Þorri landsmanna 2011

Ölgerðin efndi til keppni um nafnbótina í tilefni bóndadagsins en þann dag kom Egils Þorrabjór í áfengisverslanir. Allir sem báru nafnið Þorri voru gjaldgengir í keppnina og skráðu fjölmargir Þorrar sig til leiks.
"Ég held að það verði erfitt að toppa þetta," segir Guðni Þorri Egilsson, nýkrýndur "Þorri landsmanna" 2011. 
Guðni Þorri þótti bera höfuð og herðar yfir aðra Þorra, enda var hann einungis klæddur þingeyskum boxer-nærbuxum sem móðir hans, Sigurlína Jóhanna, prjónaði á hann. 


03.01.2011 20:07

Sænskur málsháttur


Óttastu minna, vonaðu meira,
Borðaðu minna, tyggðu meira.
Kvartaðu minna, andaðu meira.
Talaðu minna en segðu meira,
...Elskaðu meira...
Þá öll heimsins gæði munu falla þér í skaut.

31.12.2010 16:20

2011

11.12.2010 16:12

Fallegur himinn og glitský

Ég hef mjög gaman af að horfa til himins þessa dagana.
Í gær fór ég í heimsókn til Einars sonar míns og Lindu sem búa í Keilusíðu á Akureyri og þegar ég nálgaðist blokkina þá varð mér litið upp og þá voru þessi fallegu glitský yfir Glerárdal.
Ég var með myndavél  (því miður ekki þessa nýju) og náði nokkrum myndum.
Flesta daga sést til sólar hér um og eftir hádegi og það er mjög fallegt að horfa í suður  og vestur eftir Eyjafirðinum þangað sólin hverfur á bak við Kerlingu og Súlur.
Ég set inn myndir, af því sem ég næ á "filmu" og ég vil geyma, af og til þegar ég er í stuði til þess.   emoticon

08.12.2010 14:50

Ísland í dag

Svona er Ísland í dag.

Nú er Gunna á gömlu skónum, það var að falla lán. 
Siggi er í útrásinni og er að fremja rán.   
Pabbi enn í ógnarbasli á með víxilinn. 
Fljótur Siggi hringdu nú í bankastjórann minn.   
Heimilið í ljósum logum, pabbi drakk sig frá. 
Mamma er í athvarfinu gul og rauð og blá..  .

23.11.2010 17:04

Skjaldarvík

Fór í gærkvöld á sykurmassa/fondant námskeið í Skjaldarvík. 
Gaman að sjá hvað þessi ungu hjón eru búin að gera fínt hótel í Skjaldarvík  og það var sniðugt hjá Hildi að halda svona námskeið þarna og konur á ýmsum aldri skemmtu sér við að skreyta með sykurmassa og þemað var jólin. 
Myndir af kökunum sem voru skreyttar (frumraun hjá flestum) eru komnar inn.. og getraun: Hver þeirra er kakan mín?...  emoticon  

22.11.2010 16:22

Myndir frá Handverkshátíðinni

Var að setja inn myndir frá Handverkshátíðinni á Hrafnagili og líka frá uppskeruhátíðinni í Funaborg. 

13.11.2010 15:55

Félag aldraðra í Eyjafirði

Ég er loksins að setja myndir inn á síðuna sem ég hef tekið í ferðum og á skemmtunum sem mér hefur boðist að taka þátt í  með Félagi aldraðra í Eyjafirði (þó að ég sé nú ekki gjaldgeng í félagið ennþá).

13.11.2010 15:35

Friðarhugleiðsla 2010

Spakmæli dagsins eru í boði Friðarhugleiðslu Íslands:   

Má bjóða þér að taka þátt í Friðarhugleiðslu Íslands? 

Þú þarft ekki að kunna hugleiðslutækni til að geta tekið þátt!  Í ljósi þess að það er mikil þörf fyrir meira ljós í hugum okkar Íslendinga, jákvæðara andrúmsloft, meiri von og trú á okkar land og þjóð, höfum við ákveðið að bjóða öllum þeim sem eru sama sinnis að taka þátt í einfaldri hugleiðslu heima hjá sér...  

Fyrsta Hugleiðslan fer fram:  fimmtudagskvöldið 11.11. 2010 kl. 11:00 í 11 mínútur.

Frá og með 11. nóvember mun hópur fólks fara í þessa hugleiðslu á fimmtudagskvöldum kl. 11:00, alltaf sama hugleiðslan í 11 mínútur.  

Þú tekur þátt þau kvöld sem þér hentar. Það eina sem þú þarft að gera til að taka þátt er: Þú lætur fara vel um þig hvar sem þú ert stödd/staddur, sitjandi eða liggjandi og hugleiðir í 11 mínútur á FRIÐ OG LJÓS. 

Með lokuð augu byrjar þú á að slaka á líkamlega og andlega, andar rólega og hugsar um ljós og frið fyrir þig.  Leyfðu þér að finna frið innra með þér og ímyndaðu þér fallegt, hlýtt og notalegt ljós skína á þig og í gegnum þig.  Gefðu þér þann tíma sem þarf til að finna frið og ljós innra með þér.  Hugsaðu svo að ljósið og friðurinn færist yfir fjölskylduna þína, þú getur tekið eina manneskju í einu eða alla fjölskylduna saman. 

Sendu Frið og Ljós inní þau öll. 

Færðu síðan Ljósið og Friðinn yfir á nágrannana þína, vinnufélaga, hverfið þitt, bæjarfélagið þitt og endaðu á að senda þetta Ljós og Frið yfir allt Ísland. 

ATH. það skiptir ekki máli þó þér takist ekki að senda Ljósið og Friðinn frá þér. Það skiptir heldur ekki máli hversu langt þú sendir Ljós og Frið, ef þér tekst að finna Ljós og Frið innra með þér þá er tilganginum náð !  

Tilgangurinn er: Að hver og einn Íslendingur upplifi FRIÐ og LJÓS í 11 mínútur. Það er upphaf þess að geta séð og hrundið í framkvæmd jákvæðri orku, breyttu hugarfari og aðstæðum okkar dásamlegu þjóðar. 

Þegar margir einstaklingar taka sig til og hugleiða á frið þá hefur það verið marg sannað að orkustig hækkar á jákvæðan hátt og hefur áhrif á umhverfið og  líðan fólks allt í kring, andrúmsloftið breytist, ekkert ósvipað því sem gerist þegar farið er með bænir fyrir einstaklingum, en margir þekkja mátt bænarinnar.

Þess vegna er tilvalið að fólk á heimilum eða jafnvel vinnustöðum sameinist í 11 mínútna ósk um frið og ljós, okkur öllum til handa.

Til þess að gera öllum kleift að taka þátt í þessu jákvæða verkefni, hvaða trú sem þeir fylgja, ákváðum við að hafa Friðarhugleiðslu óháða öllum trúarstöðum. Ef þú hefur áhuga á að vera í hópnum  "Friðarhugleiðsa Íslands" í framtíðinni endilega sendu póst með nafni og síma á eitt af eftirfarandi póstföng:  

hugleidsla@hotmail.com         osk@osk.is                 birna@centrum.is  

hoopono@ymail.com              kbaldursdottir@gmail.com  

Mundu að stilla símann þinn á áminningu, fimmtudaginn 11. nóvember. Þökkum þér innilega fyrir samhug og þátttökuna.   

Friður og Ljós.     Arnbjörg, Birna, Guðrún, Katrín, Kristín og Ósk 

28.09.2010 20:22

28. sept.2010

Þá er búið að þrífa hjólhýsið eftir ferðir sumarsins og fer það væntanlega í vetrarhýðið á morgun.

Það verður nú að teljast til tíðinda að vera úti á stuttermabol við svoleiðis þrif
 28. september, en hitinn hefur verið +10 til +16 °C síðustu daga og stendur mælirinn
 í 12 °C núna kl. 20:30.  Ég frétti að hitinn á Öxnadalsheiði mælist +13 °C kl. 21:00.

Þennan dag árið 1903 fæddist Marinó Steinn afi og 1979 fæddist barnabarn hans.. 
En nei... hún heitir ekki Marín Steina, heldur Fjóla Ósk.

14.09.2010 12:24

Þunglyndi

Ég ætla að leyfa mér að setja inn link að síðu sem ung kona, sem ég kannaðist við (en þó kynntist ég meira foreldrum hennar árin áður en þau skildu), skrifar um lífsreynslu sína.

http://nurseimba.posterous.com/ 

Ég hef sjálf kynnst þunglyndi og barðist við það í nokkur ár og ég veit að ég ætla ekki þangað aftur. Það er alltaf vinna í sjálfum sér og á meðan verðum við sjálfselsk og dofin og hrindum tilfinningum frá okkur því það er ákaflega erfitt að eiga við allar tilfinningar þegar við erum þunglynd.
En ég er þakklát fyrir þessa reynslu sem ég hef í dag og lífið sem ég lifi núna en enn er ég mjög viðkvæm fyrir öllu áreyti og forðast það eins og ég get svo að ég reyni að hafa lífið sem ánægjulegast og hrindi frá mér öllu óþægilegu eins og ég get.
Auðvitað getum við ekki forðast allar óþægilegar uppákomur og ég er líka misjafnlega upplögð og þá þarf bara að reyna að taka á því á hverjum tíma og enn nota ég þá aðferð að draga mig í hlé ef mér finnst umhverfið ógnandi. 

Eitt stendur þó alltaf uppúr; ég forðast fólk sem reiðist auðveldlega og er oft reitt og veit jafnvel ekki af hverju það er reitt en hefur sig ekki í að vinna í sínum málum.
Eða jafnvel veit ekki að það sé svona reitt inni í sér.

Ég lærði það á sjálfstyrkingarnámskeiði að við reiðumst oftast þegar við getum ekki stjórnað.
Hvort sem það eru aðstæður sem við ráðum ekki yfir eða einhver er ekki nógu meðfærilegur að okkar mati, þá verðum við reið af því að við ráðum ekki og getum ekki stjórnað. 
Eða jafnvel þegar við erum svo þröngsýn að við viljum ekki heyra annarra skoðanir og teljum okkar álit vera best. 
 
Til er gott spakmæli sem segir: Sannleikanum er hver sárreiðastur.


06.09.2010 00:14

Enn 20° C í sept. 2010

Fimmta daginn í röð mælist yfir 20 stiga hiti á Norðurlandi, í þeirri óvenjulegu hitabylgju sem umlykur landið þessa dagana, á þeim árstíma sem venjulega telst til haustsbyrjunar. Mestur hefur hitinn í dag farið í 22,3 gráður í Ásbyrgi en nærri 22 stiga hiti hefur einnig mælst í Eyjafirði og Skagafirði í dag, samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Veðurstofunnar.

Þar með hafa allir fyrstu fimm dagar þessa septembermánaðar sýnt yfir 20 stiga hita á einhverri veðurstöð norðanlands, og einstaka stöðvar, eins og Torfur í Eyjafirði, hafa slegið í 20 stigin alla dagana. Mest voru hlýindin í gær þegar 25 stiga hiti mældist á Möðruvöllum í Hörgárdal. 

Samkvæmt langtímaspá verður áfram hlýtt á landinu næstu daga, allt fram á miðvikudag.

Flettingar í dag: 59
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 109
Gestir í gær: 24
Samtals flettingar: 235255
Samtals gestir: 26500
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:28:21

Nafn:

Sigrún Jóhanna Þorsteinsdóttir

Afmælisdagur:

14. júní

Staðsetning:

Eyjafjörður

Faðir:

Þorsteinn Marinósson

Móðir:

Fjóla Kristín Jóhannsdóttir

Um:

Velkomin á síðuna mína.

Eldra efni

Tenglar