Sigrún Jóhanna Þorsteinsdóttir

28.01.2009 20:01

Laugar '71 - '73

Stofnaði hóp á Facebook fyrir nemendur sem voru í Héraðsskólanum Laugum í Reykjadal á sama tíma og ég eða veturna 1971-1972 og 1972-1973.
Verður gaman að sjá hverjir dúkka þar upp t.d. náði ég strax sambandi við skólasystur sem ég hef ekki séð eða heyrt í í 35 ár eða frá því að við útskrifuðumst, um leið og ég skráði mig á Facebook.
Þetta er ágæt leið til að frétta aðeins af öðrum því að nú til dags hittist fólk lítið til að spjalla og fá fréttir. Ég var nú svo sem aldrei dugleg við það þó að mér fynnist það skemmtilegt.

Aldrei að vita nema fleiri hafi áhuga á tölvu og droppa inn á svona samskipti þó svo að við teljumst núna miðaldra (á seinna unglingaskeiðinu).


11.01.2009 01:58

Frábær flugmaður

http://www.youtube.com/watch?v=XRCbkBfdBrQ

Ótrúleg lending hjá þessum flugmanni emoticon


04.01.2009 16:24

Jól og áramót 08-09

Setti inn nokkrar myndir teknar um jólin og áramótin.
Því miður var myndavélin ekki rétt stillt svo myndirnar eru ekki góðar.
Ég var að fikta með stillingarnar í vélinnni fyrir jólin og setti inn stillingu sem ég fann svo ekki þegar ég ætlaði að taka hana af aftur (þvílíkur snillingur emoticon ).
Af þessum sökum þá myndaði ég ekki mikið eða svona rétt til þess að eiga einhverjar minningar.
Ætla að setja inn video af boxinu í bílskúrnum og líka af viðureign Dökkvu og Caspers.


31.12.2008 03:42

Stjórnmálin

Aumingja Geir og co!!!

16.12.2008 00:52

Orlofsferð í Mývatnssveit

Húsmæður í og við Eyjafjörð fóru í aðventuferð í Mývatnssveit 29. - 30. nóv. og var það vel lukkuð og skemmtileg ferð.

 www.123.is/orlofey

Það er síðan sem Orlof húsmæðra í Eyjafirði hefur komið sér upp.

16.12.2008 00:26

Nýjar vetrarmyndir

Setti inn nokkrar myndir teknar í okt. - des. 2008.
Einnig myndir af Dökkvu og Kasper (Villa og Kötu) og Axel og Ágústi þegar þeir komu og fengu að gista hjá okkur.
Dökkva var ánægð með snjóhúsið sem Fúsi bjó til handa henni emoticon

25.11.2008 00:14

Ást í hugum ungra barna

Hvað er ást í hugum ungra barna?

Fagfólk lagði spurninguna fyrir hóp af 4 - 8 ára börnum, "Hvað þýðir Ást?"

Svörin voru fjölbreyttari og dýpri en nokkurn grunaði.  Hvað finnst þér?:  

'Þegar amma mín fékk liðagigtina gat hún ekki beygt sig niður til að lakka táneglurnar lengur.   Svo að Afi minn gerði það alltaf fyrir hana jafnvel
eftir að hendurnar hans fengu liðagigt líka.  Það er Ást.'   Rebekka 8 ára

'Þegar einhver elskar þig, segja þeir nafnið þitt öðruvísi.   Þú bara veist að nafnið þitt er öruggt í munninum á þeim.'       Billy -4 ára

'Ást er þegar stelpa setur á sig ilmvatn og strákur setur á sig rakspíra
og þau fara út og lykta af hvort öðru.'           Karl -5 ára

'Ást er þegar þú ferð út að borða með einhverjum og hann gefur þér frönskurnar
sínar án þess að láta þig gefa sér nokkuð af þínum eigin.'  Chrissy -6 ára

Ást er það sem lætur þig brosa þegar þú ert þreytt.'   Terri -4 ára

'Ást er þegar Mamma gerir kaffi handa Pabba,og hún tekur sopa áður en hún gefur honum það til að vera viss um að bragðið sé í lagi.'   Danny -7 ára

'Ást er þegar þið kyssist öllum stundum.   Síðan þegar þið eruð þreytt á að kyssast viljið þið enn vera saman og tala meira.  Mamma mín og pabbi eru þannig.   Það er ógeðslegt þegar þau kyssast'        Emily - 8 ára

'Ást er það sem er með þér í stofunni á jólunum ef þú stoppar að taka upp gjafirnar og hlustar.'         Bobby -7 ára      (Vaá!)

'Ef þú vilt læra að elska meira skaltu byrja á vini sem þú hatar,'      Nikka -6 ára
(við þurfum nokkrar milljónir af Nikkum á þessa jörð)  

'Ást er þegar þú segir strák að þér finnist skyrtan hans falleg,
og þá gengur hann í henni alla daga.'       Noelle -7 ára 

'Ást er eins og lítil gömul kona og lítill gamall maður sem eru enn vinir jafnvel eftir að þau kynnast hvort öðru svo vel.'      Tommy -6 ára

'Þegar ég var með píanótónleikana mína, var ég á sviði og ég var hrædd.
Ég leit á allt fólkið sem horfði á mig og sá pabba minn veifa og brosa.
Hann var sá eini sem gerði það. Ég var ekki hrædd lengur'  Cindy-8 ára

'Mamma mín elskar mig meira en nokkur annar.  Þú sérð engan annan kyssa mig góða nótt á kvöldin.'     Clare - 6 ára

'Ást er þegar mamma gefur pabba besta hlutann af kjúklingnum.'
Elaine - 5 ára 

'Ást er þegar Mamma sér Pabba illa lyktandi og sveittan og segir enn að hann sé myndarlegri en RobertRedford.'        Chris - 7 ára

'Ást er þegar hvolpurinn þinn sleikir þig í framan eftir að þú skildir hann eftir einan allan daginn.'       Mary Ann - 4 ára 

'Ég veit að stóra systir mín elskar mig vegan þess hún gefur mér
öll gömlu fötin sín og verður að fara í búðina og kaupa ný.'  Lauren - 4 ára

'Þegar þú elskar einhvern, fara augnhárin upp og niður og litlar stjörnur koma út úr þér.'   (þvílík sýn)     Karen - 7 ára

'Þú ættir ekki að segja "Ég elska þig" nema þú meinir það.  En ef þú meinar það áttu að segja það oft.  Fólk gleymir.'     Jessica - 8 ára

Rúsínan í pylsuendanum! 

 4 ára gamall drengur átti gamlan herramann að nágranna sem hafði nýlega misst konuna sína.   Þegar hann sá gamla manninn gráta, fór litli drengurinn inn í garð herramannsins, klifraði upp í kjöltu hans og bara sat þar.
Þegar móðir hans spurði hann hvað hann hafði sagt við gamla manninn svaraði hann:       "Ekkert. Ég bara hjálpaði honum að gráta"

22.11.2008 00:56

Stjórnmálin



Tillögu til þingsáyktunar um vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar var dreift á Alþingi í dag.

Flutningsmenn tillögunnar eru Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna. Valgerður Sverrisdóttir, formaður Framsóknarflokksins og Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins.

Þar segir: Alþingi ályktar að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina. Alþingi lýsir þeim vilja sínum að þing verði rofið fyrir 31. desember og efnt  til almennra þingkosninga í framhaldinu.


Sko  !

Steingrímur ¨afi¨ Sigfússon er skólabróðir minn og Valgerður er fyrrverandi kærasta móðurbróður míns.

Ég held bara að ég verði að styðja þau emoticon 

Annars vildi ég nú sjá góða menn í þjóðstjórn sem hafa menntun og reynslu, ekki bara pólitíkusa og framapotara sem skaffa sínum persónulegu vinum vel launaða vinnu.


17.11.2008 13:42

Bjórinn og sjónvarpið

Við hjónin sátum við sjónvarpið og af því að það var ekkert spennandi í því þá spjölluðum við saman.
Meðal annars töluðum við um dauðann og hvað við myndum vilja að yrði gert ef hann bæri svona og svona að.
Maðurinn minn sagði þá að hann vildi ekki að sér yrði haldið lifandi með tækjum og fljótandi fæði til að halda honum á lífi.
Ég stóð náttúrulega strax á fætur, slökkti á sjónvarpinu og hellti niður bjórnum hans.  emoticon


16.11.2008 21:07

Árshátíð SM starfsmanna

Þá er Árshátíð SM starfsmanna lokið.

Starfsmenn byrjuðu daginn á að fara á Þelamörk og spila bandí í íþróttasalnum. Til allrar lukku stórslasaðist enginn og síðan fóru þeir í keilu á Kaffi Jónsson.

Okkur mökum þeirra (sem flestir eru konur) buðu þeir upp á dekur í Hár og heilsu.

Ég byrjaði á að fara með bilaða sjónvarpið í Nortek til Valgeirs og tók myndir af sólinni og Súlum á meðan ég beið eftir að hann kæmi frá Glerartorgi þar sem hann var að laga einhverjar vitlausar tengingar í þjófavarnarkerfinu.

Síðan fór ég í slökunarnuddið sem ég valdi og Inga frænka fékk það hlutverk að nudda mig og gerði það vel.

Ég hafði að sjálfsögðu myndavélina með og smellti mynd af þeim konum sem ég náði í förðun og hárgreiðslu og má sjá afraksturinn af þeim fegrunaraðgerðum á myndum sem teknar eru á árshátíðinni um kvöldið.





11.11.2008 00:06

Davíð frá, krónan út, og ríkisstjórnin fellur

Fannst þetta áhugavert og geymdi það!

Gunnlaugur Guðmundsson.                                 sev skrifar:


"Ég held að við leggjum niður krónuna og göngum í Evrópusambandið. Ísland mun ganga til liðs við heiminn og nýtt fólk komast til valda," segir Gunnlaugur Guðmundsson stjörnuspekingur.

Hann spáði því í kringum síðustu áramót að miklar breytingar væru framundan á íslensku þjóðfélagi. Gamla Ísland væri að deyja, og hið nýja að fæðast. Ríkið myndi á árinu þurfa að hlaupa undir bagga með bönkunum - nokkuð sem flestir töldu óhugsandi þá.

"Í vetur munu pólitískar línur skerpast," segir Gunnlaugur um það ástand sem skapast þegar forgangsraða þarf þeim verkefnum sem nú eru fyrir höndum. Mikil átök muni koma upp um hvert veita skal því fé sem eftir er. "Ég held það muni leiða til þess að stjórnin springi í vetur eða vor," segir Gunnlaugur og reiknar með því að Ingibjörg Sólrún standi uppi með pálmann í höndunum.

Davíð frá í nóvember?  Gunnlaugur segir Davíð Oddson seðlabankastjóra að mörgu leiti táknmynd gamla Íslands. "Það er þó ekki hægt að afskrifa Davíð. Hann er steingeit og þær eru seigar," segir Gunnlaugur. Hann bætir við að þegar menn fari að spyrja sig hví fór sem fór, þá átti þeir sig á því að allt gerðist þetta á vakt Davíðs. "Það er ákveðin staða í hans korti núna um miðjan nóvember sem gefur til kynna miklar breytingar. Það kæmi mér ekki á óvart að hann færi frá nú í nóvember," segir Gunnlaugur, sem telur að þetta hafi þegar verið ákveðið, en Davíði verði leyft að halda andlitinu.
Fátt er svo með öllu illt.  Miklar breytingar eru í kortunum, en Gunnlaugur er þrátt fyrir allt bjartsýnn. "Hinn venjulegi maður þarf ekkert að hafa áhyggjur," segir Gunnlaugur. Hann bætir þó við að næstu ár geti þó orðið erfið fyrir suma. Einhverjir verði atvinnulausir og jafnvel gjaldþrota. Ástæðulaust sé þó að örvænta. Ástandið muni ala á samkennd í þjóðfélaginu og fólk muni leita meira inn á við og í félagsskap vina og ættingja. "Þjóðfélagið verður að mörgu leiti notalegra og mannlegra," segir Gunnlaugur.
"Þessi góðærisár hafa verið köld og leiðinleg. Undanfarin ár höfum við verið of upptekin við að skipta um eldhúsinnréttingar og marmaraklæða baðherbergi til að sjá það sem mestu máli skiptir," segir Gunnlaugur. "Þegar ég horfi til baka finnst mér þessi krepputímabil oft hafa verið bestu tímabilin. Þegar maður finnur fyrir ótta þarf maður stuðning frá næsta manni. Fólk opnar hjartað og knúsar hvort annað. Þú færð enga sérstaka gleði af því að sitja inni á marmarabaðherbergi og skrúfa frá gullkrönunum."

09.11.2008 15:21

Sumir Íslendingar!

Innistæðulaust oflæti.

ÞJÓNUSTUSTÚLKA á veitingahúsi á flugvellinum í Minneapolis sagði einu sinni við mig að hún þekkti alltaf úr Íslendingana í farþegahópunum á flugvellinum. »Þeir eru yfirleitt í merkjafötum, eins og Burberry og svo stika þeir áfram með nefið upp í loftið, eins og þeir eigi allan heiminn.« Jæja. Sic transit gloria mundi (þannig dvínar heimsins dýrð). Þessa dagana er þjóðin niðurlút og þeir sem eiga Burberry varning munu ef til vill reyna að selja hann á eBay í framtíðinni til að hafa upp í matarreikningana.

Ég hef búið í Bandaríkjunum meira eða minna í 15 ár og mér hefur allt fundist einkennilega
heillandi að fylgjast með íslensku neysluorgíunni, bæði úr fjarlægð og þegar ég er heima. Kannski var ég bara abbó að hafa ekki efni á Burberry nema því sem selt var á eBay, en upp úr aldamótum fór maður virkilega að klóra sér í hausnum yfir þenslunni á Íslandi - verslununum, nýbyggingunum og sýndarneyslunni (norski hagfræðingurinn Thorsten Veblen hefur áreiðanlega séð fram í tímann, til Íslands okkar tíma, þegar hann árið 1899 kom fram með hugtakið conspicuous consumption). Auðvitað náði þetta »góðæri,« eða réttara sagt þetta innistæðulausa oflæti ekki til allra. Almennt verkafólk og launafólk - eins og foreldrar mínir, opinberir starfsmenn í áratugi - var ekki að spjátra sig í Burberry. En svo margir virtust velta sér í peningum og fjölmiðlar fjölluðu mun meira um skattlausa útherjana á ofurlaunum og kokkteilpartíin þeirra heldur en um kjör launþeganna sem að mestu bera ábyrgðina á að greiða rekstrarkostnað íslensks samfélags.

Eitt sinn í Íslandsbankaútibúinu mínu (þegar ég skrifaði einu sinni að Glitnir væri »besti banki í heimi« var ég að tala um Brynjólf Gíslason og starfsfólk bankans í Gullinbrú) gat ég ekki orða bundist og spurði ráðgjafann, sem hafði unnið þar í mörg ár, um allan þennan vöxt. »Hvaðan koma peningarnir til að gera þetta allt?« - því ég er ein af þessum gamaldags týpum sem trúa að það hljóti eitthvað að þurfa að vera á bak við fullt af peningum, einhver verðmæti. »Elskan mín, þetta eru bara pappírar,« sagði hún. »Það er ekkert á bak við þetta; þetta hrynur allt saman eftir nokkur ár.«

Gamli sögukennarinn minn sagði að eftir seinni heimsstyrjöldina hefðu spekingar í bresku leyniþjónustunni sagt að Íslendingar myndu aldrei getað stjórnað sér sjálfir; að pólitíska valdastéttin á Íslandi væri svo upptekin af eigin hagsmunum og svo spillt af pólitískri innræktun að hún myndi aldrei hafa velferð þjóðarinnar að leiðarljósi. Ái! Bretarnir höfðu heldur betur rétt fyrir sér.

Það er óraunverulegt að horfa á ráðherrana í Sjálfstæðisflokknum og seðlabankastjóra blaðra í sjónvarpsfréttum um efnahagshrunið - þetta er fólkið sem færði fermingardrengjunum í Sjálfstæðisflokknum á silfurfati stofnanir í eigu almennings til að ræna þær og rupla og stinga svo af með gróðann úr landi, sama fólkið sem undanfarin ár hefur verið að skála við útrásarvíkingana í kokkteilboðum. Að þessir pólitíkusar skuli ekki hafa þá ögn af sóma til að segja af sér sýnir hversu fullkomið þeirra virðingarleysi er gagnvart íslenskum almenningi.

Núverandi ríkisstjórn ætti að segja af sér, boða ætti til nýrra kosninga og nýtt Alþingi ætti síðan að setja lög þess efnis að gera upptækar eignir íslensku fjárglæframannanna. Síðan þyrfti að ráða erlenda sérfræðinga, sem engra hagsmuna eiga að gæta á Íslandi, til að bjarga því sem bjargað verður, þar sem íslenskir stjórnmálamenn hafa sýnt að þeim er ekki treystandi fyrir tómum sparibauk.

Í leiðinni væri ráð að láta erlendu sérfræðingana skera niður yfirbygginguna í íslensku þjóðfélagi sem er slík að annað eins tíðkast hvergi á byggðu bóli. Seðlabankinn, - batterí sem hefði komist fyrir í skúffu í Landsbankanum fyrir nokkrum áratugum; ekki dugir minna en að hafa þrjá seðlabankastjóra. Þrjá! Ef við yfirfærum þetta á Bandaríkin myndi þeirra seðlabanki hafa níu þúsund seðlabankastjóra!

Eða utanríkisþjónustan, sem er að mestu leyti ofvaxin geirvarta fyrir pólitíkusa og vel tengda flokksmeðlimi. Þarf 300.000 manna þjóð virkilega að hafa 23 fulltrúa á launum í Bretlandi eða níu í París (þar af fimm ritara), eða fimm manns í Austurríki? Í Brussel eru a.m.k. 21 á launum; næstum öll íslensku ráðuneytin hafa sér fulltrúa þar. Er virkilega bráðnauðsynlegt fyrir félagsmála- eða menntamálaráðuneytið að hafa spes fulltrúa í Brussel? Allir þessir útpóstar hafa líka bílstjóra; greinilega er nauðsynlegt að hafa menn á fullum launum til að skutla mannskapnum á milli kokkteilteita.

Ekkert þjóðfélag, sérstaklega jafnlítið samfélag og Ísland, stendur undir svona bruðli. Íslenskir stjórnmálamenn hafa sagt að óhjákvæmilegt verði að skera niður ríkisútgjöld í kjölfar efnahagshrunsins. Þegar niðurskurðarhnífurinn verður mundaður ætti fyrst að flá þessar bruðlbyrðar af herðum íslenskra skattgreiðenda, sem um ókomin ár munu aðeins geta látið sig dreyma um erlendar flughafnir meðan þeir þrífa upp eftir græðgisfyllirí fjárglæframannanna og þeirra pólitísku hirðfífla.

Grein í Mogganum í dag eftir Írisi Erlingsdóttur.

06.11.2008 00:02

Orlof húsmæðra

Orlofsnefnd húsmæðra í Eyjafirði hefur komið sér upp heimasíðu á netinu og er slóðin á síðuna:

www.123.is/orlofey

Þar verða settar inn myndir úr orlofsferðum og upplýsingar um fyrirhugaðar ferðir og annað tilfallandi.


04.11.2008 00:15

Um kreppuna!!!

Smá dæmisaga vegna hinnar svokölluðu "kreppu"
Íslensk kona hefur verið að styrkja námsmann í Uganda sem "óvænt varð á
vegi hennar" eins og hún orðaði það. Hann var búinn að lofa að senda henni
einkunnirnar sínar sem hann og gerði þegar þar að kom. Þar kom fram að
hann hafði fengið A í öllum fögum og góða umsögn að auki. Það var
nefnilega búið að gera honum ljóst að góður árangur væri lykillinn að því
að hann fengi áframhaldandi styrk.

En allt er breytingum undirorpið í henni veröld og ýmislegt getur
vissulega haft áhrif á afkomu Frónbúans og getu hans til að láta gott af
sér leiða. Hún var að velta því fyrir sér hvort rétt væri að reyna að
segja honum frá gangi mála hér á landi, þ.e. kreppunni og öllu því. Og það
gæti því miður reynst nauðsynlegt að skera eitthvað niður styrkinn vegna
hins breytta ástands hérna megin. Það eru nefnilega tiltölulega litlar
líkur á því að fréttir af Íslenska skipbrotinu hafi borist alla leið til
hans þarna í Entebbe. Og svo er alls ekki víst að hann skilji alvöru
málsins á sama hátt og við hér heima. En ef reynt væri að útskýra hið
Íslenska kreppuástand fyrir honum sem virðist ætla að fara langt með að
sliga þjóðina einhver þó nokkur ár inn í framtíðina, gæti það samtal orðið
á eftirfarandi nótum.


*Heyrðu félagi, það er úr vöndu að ráða. Íslenska þjóðin er gjaldþrota!

Hvað segirðu, en leiðinlegt að heyra, eigið þið þá ekki fyrir baunum og
maís?

*Jú reyndar eru búðir fullar af mat og enginn vöruskortur.

Hvað segirðu, þið eigið þá mat. Það er gott. En eigið þiðþá ekki þak yfir
höfuðið lengur!

*Jú við eigum reyndar íbúð eins og flestir og það eru fáir heimilislausir
á Íslandi.

En hvað segirðu mér þá? Gengur plága yfir landið, eru allir veikir og
heilbrigðiskerfið lamað?

*Nei nei reyndar ekki, við fáum nánast ókeypis læknaþjónustu og erum með
ágætt heilbrigðiskerfi.

Nú jæja. Það var gott að heyra. En eru þá skólarnir að loka og fá kannski
ekki allir tækifæri til að læra að lesa lengur og sérstaklega þá ekki
konur.

*Jú reyndar er 99,9% læsi á Íslandi og menntakerfið er ágætt, margir með
háskólagráður og konur ekki síður en karlar.

Það er nú gott, en þið verðið þá að passa er að lenda ekki í stríði við
nágrannaþjóðir ykkar.

*Uuuu við erum reyndar ekki með her og teljumst nú frekar friðsæl þjóð. En
við þurfum bara að hlusta á bullið og stríðsyfirlýsingarnar í fíflinu
honum Gordon Brown. Það er það sem við munum líklega komst næst því að
fara í stríð.

Ok. Segðu mér nú samt ekki að þið komist ekki í hreint vatn.

*Við eigum reyndar besta vatn í heimi.

Nú, er vegakerfið þá ónýtt? Hérna í Afríku ganga allir eða nota asna og
stundum reiðhjól. Það eru líka til strætisvagnar hérna, en þeir eru alltaf
yfirfullir.

Eru kannski strætóarnir hjá ykkur hættir að ganga?

*Neeee... Það er verið að ræða um hvort almenningssamgöngur hér eigi að
vera ókeypis, en það eru flestallir vegir malbikaðir og næstum allir eru á
nýlegum bílum.

Eigið þið þá enga peninga til að gera ykkur glaðan dag? Ég meina, þú
sagðir að þjóðin væri gjaldþrota.

*Flestir eiga reyndar einhvern sparnað á bókum þó sumir hafi tapað honum
eða hluta hans síðustu daga. Það verður alla vega erfitt að kaupa stærri
flatskjái og utanlandsferðunum verður að fækka.

Já, ég á kannski einhvern tíma eftir að fara til útlanda, en ég er nú líka
frá Uganda. Hefur kannski enginn vinnu og þurfið þið núna öll að betla?

*Neiiij...! Atvinnuleysið er um 2% en við verðum að flytja Pólverjana
aftur heim og fara sjálf að vinna vinnuna sem þeir unnu.

Hmmm... Svo þið hafið peninga, mat, húsaskjól, heilbrigðiskerfi,
menntakerfi, búið við frið, eigið nóg hreint vatn og samgöngur eru góðar.

Segðu mér, hvert var vandamálið aftur?


Eftir þessar vangaveltur um aðstæður okkar hérna uppi á skerinu og þetta
ímyndaða samtal, ákvað hún að vera ekki að íþyngja honum með ræfilslegum
áhyggjum sínum af "gjaldþrota" eyríki norður í ballarhafi. Námsgjöld hans
skulu greidd hér eftir sem hingað til og kannski fær hann líka smá
vasapening með. Hann getur þá kannski tekið strætó í skólann endrum og
sinnum í stað þess að þurfa ganga í marga klukkutíma eins og venjulega. Fé
hins meinta íslenska terrorista yrði þá líklega bara vel varið.


Flettingar í dag: 294
Gestir í dag: 92
Flettingar í gær: 62
Gestir í gær: 16
Samtals flettingar: 249702
Samtals gestir: 28557
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 05:58:24

Nafn:

Sigrún Jóhanna Þorsteinsdóttir

Afmælisdagur:

14. júní

Staðsetning:

Eyjafjörður

Faðir:

Þorsteinn Marinósson

Móðir:

Fjóla Kristín Jóhannsdóttir

Um:

Velkomin á síðuna mína.

Eldra efni

Tenglar