Sigrún Jóhanna Þorsteinsdóttir

01.05.2017 09:43

Síðan opin aftur

Síðan hefur verið lokuð um tíma, en nú hefur verið opnað fyrir hana aftur og hægt að skoða þær myndir sem eru hér inni. 

02.04.2015 10:38

Nýjar myndir

Kristófer Príor Níelsson fermdist 28. mars 2015. Myndir komnar á myndasíðu.

Gleðilega páska   emoticon 

16.12.2014 00:04

Hátíð nálgast

Frið á jörð og farsæld mikla

flesta oftast dreymir um.

Þarf nú oftar þó að stikla

þrautir yfir og í kringum.

 

Hátíð þessi heldur innreið 

í húsin björtu, skreyttu, fín.

Kætumst flest, ku þó leiðin ógreið

koma jólin og gleðin skín. 

07.11.2014 14:22

Bragur eftir Birgir Marinósson

4. nóvember 2014

At er við Austurstræti,
andskotans bölvuð læti
víst sem að vonum er.
Við þetta er vont að búa.
Valdamenn farnir að trúa
lyginni í sjálfum sér.

Áfram nú, engar skyssur,
ókeypis hríðskotabyssur
nú láta má löggur fá.
Skorinorð skýrsla samin,
í skyndingu saman lamin,
hvaða skaðvalda skjóta má.

Hér má ei fara fetið,
flestöllu lekið á netið
svo fljótt sem auðið er.
Vill enginn við neitt kannast,
veit enginn hvað er sannast.
Verður og fer sem fer.

Geðið er gramt og lúið,
ég get ekki burtu flúið
því gamall ég orðinn er.
Ef ætti ég æskuþróttinn,
auðveldur væri flóttinn.
ég fljótt myndi forða mér.

Birgir Marinósson.

07.11.2014 13:26

Myndir

Myndir frá 80 ára afmæli Huldu Baldvnsdóttur komnar inn.
Myndir úr fermingu Önnu Marýar Aðalsteinsdóttur komnar inn. 

04.08.2014 23:04

Vorferð A-V 2014

Kvenfélagskonur fóru í ágætis vorferð í Svarfaðardal, Dalvík, Ólafsfjörð og Siglufjörð. 
Myndir úr ferðinni eru komnar inn á myndasíðuna. 

16.06.2014 11:24

Myndir að tínast inn á síðuna

Er að setja myndir frá síðustu mánuðum inn á síðuna eftir því sem mér vinnst tími til. Vonandi hafa einhverjjir gaman af að skoða eitthvað af þeim, þó að þær séu fyrst og fremst settar inn á þessa síðu til þess að ég glati ekki myndunum og geti gengið að þeim vísum hvar sem er og hægt er að komast á netið. 

16.06.2014 10:32

Um meðvirkni

Meðvirkni hefst í æsku

Mikilvægt er að tryggja börnum gott og heilbrigt umhverfi en alls konar áföll og erfiðleikar geta valdið meðvirkni hjá börnum sem fylgir þeim inn í fullorðins árin.

Meðvirkni hefur lengi verið þekkt hér á landi. Flestir tengja hugarástandið réttilega við alkóhólisma en meðvirkni á sér fleiri uppruna og kemur fram með margvíslegum hætti. Kjartan Pálmason er ráðgjafi hjá Lausninni, en þar fær fólk fræðslu um helstu einkenni meðvirkni og aðstoð við að losa sig við hugarástandið. »Meðvirkni getur komið fram með margvíslegum hætti og þess vegna er erfitt að skilgreina vandann með einum einstökum hætti en það er alveg öruggt að meðvirkni verður til í barnæsku og fylgir okkur síðan öll fullorðinsárin ef við tökum ekki á vandanum,« segir Kjartan, en hann segir meðvirkni best lýst sem brotinni sjálfsmynd einstaklings sem geri það að verkum að viðkomandi búi við innri sársauka og vanmáttarkennd. »Þegar við upplifum vanmátt og sársauka innra með okkur fer heilinn að leita að lausn á því ástandi. Vandinn er hins vegar sá að þegar heilinn reynir að leysa vandann skortir hann oft á tíðum þekkingu til að finna skynsamlega lausn. Þannig verða viðbrögð við sársauka og vanlíðan einkenni meðvirkninnar.

Hvenær myndast meðvirkni? »Meðvirkni verður ávallt til í æsku og þá þegar barn býr við langvarandi vanvirkar aðstæður,« segir Kjartan, en vanvirkar aðstæður geta veið margvíslegar. »Þegar háttalag annarra, hegðun, framkoma eða aðstæður gera það að verkum að barn hefur ekki frelsi til að vera það sjálft. Við slíkar aðstæður laga börn sig að aðstæðum til að forðast vanlíðan, en þetta er grundvöllur meðvirkni.« Sem dæmi nefndir Kjartan rifrildi foreldra sem barn verður reglulega vitni að. »Við slíkar aðstæður getur barnið tekið upp á því að blanda sér inn í rifrildið, hafa áhrif á rifrildið eða forðast það með því að einangra sig. Allar þessar leiðir setja barnið í aðstæður sem því eru ekki eðlislægar. Barnið er farið að laga sig að vanvirkum aðstæðum af einskærri sjálfsbjargarviðleitni. Barnið lærir leiðir til að láta sér líða betur í aðstæðum sem valda því sársauka.«

Birtingarmynd meðvirkni Hlutverk barna sem ala með sér meðvirkni geta verið margvísleg en allt eru þau flóttaleiðir barnsins í sjálfsbjargarviðleitni þess til að láta sér líða betur að sögn Kjartans. »Algengt hlutverk elsta barns er að verða fjölskylduhetjan, en þá leggur barnið sig fram við að fá hrós og viðurkenningar fyrir að standa sig vel í skóla og íþróttum. Þetta kann að virðast jákvæð afleiðing en getur haft slæm áhrif á tilfinningalíf barnsins. Bjargvætturinn er annað hlutverk, en þá einblínir barnið á hagi annarra og líðan og setur aðra fram fyrir sjálft sig.« Í öðrum tilvikum segir Kjartan börn taka sér hlutverk svarta sauðsins með því að vera hvatvís og setja upp tilfinningalega veggi. »Við sjáum líka týnda barnið sem einangrar sig og trúðinn sem notar skopskynið til að fela eigin tilfinningar. Hlutverkin eru margs konar og flestir hafa verið í fleiri en einu hlutverki á lífsleiðinni en hlutverkið sem barnið fer í á milli tveggja og átta ára aldurs hefur mér fundist vera mesti áhrifavaldurinn á líf barnsins. Hvert hlutverk skilur eftir sig ákveðna vanvirkni sem betur kemur í ljós á fullorðinsaldri.«

Umfjöllun um meðvirkni hefur ekki skipað stóran sess í fjölmiðlaumræðunni þó að vandinn sé gífurlega stór að mati Kjartans. »Meðvirknivandinn er grunnur allra fíkna og hefur bein áhrif á gífurlegan fjölda einstaklinga á Íslandi. Meðvirkni hefur áhrif á samskipti okkar, háttalag og lífshamingju,« segir Kjartan, en Lausnin - Fjölskyldumiðstöð hefur haldið námskeið um bæði meðvirkni og samskipti sem fjöldi fólks hefur sótt. »Námskeiðin geta verið fyrsta skrefið og síðan tökum við fólk einnig í einstaklingsviðtöl og/eða tökum fjölskylduviðtöl. Meðvirkni er ekki ólæknandi en hún krefst meðhöndlunar sem reynir á þolinmæði og vilja fólks, og til okkar hér hjá Lausninni hefur gífurlegur fjöldi fólks leitað aðstoðar.

>> Hjá fjölskyldumiðstöðinni Lausninni eru haldin námskeið um meðvirkni og samskipti. Fjöldi fólks hefur sótt námskeið hjá Lausninni og leitað til sérfræðinga miðstöðvarinnar til að kynna sér og leita aðstoðar við meðvirkni. 

Vilhjálmur A. Kjartanssonvilhjalmur@mbl.is

29.04.2014 12:33

Páskar 2014

Stefán Daníel Svanlaugsson var fermdur annan í pákum í Grensáskirkju og var okkur boðið í ferminguna. 
Myndir úr fermingunni eru komnar á myndasíðuna mína. 
Við pabbi fengum far með Manna og Indu suður um páskana. 
Við fengum lánaðan bíl hjá Einari og Lindu og skruppum í nokkrar heimsóknir, svo helgin nýttist okkur vel. 
Gistum fyrri nóttina hjá Ásu og fórum svo í Njarðvík til Ingu á páskadag þar sem okkur var boðið í mat ásamt Manna og Indu og gistum síðan þar síðari nóttina. Inga lánaði okkur bílinn sinn til að við pabbi kæmumst í kirkjuna kl. 11  og notuðum við tækifærið og heimsóttum Fjólu Ósk í nýju íbúðina hennar. Ég er mjög ánægð eftir þessa skemmtilegu ferð með fólkinu mínu. 
Svo styttist í að við Fúsi förum til Svíþjóðar í heimsókn til Valgeirs og fjölskyldu. Eigum flug út 15. maí og vonum að það verði ekkert vesen s.s. verkfall og þess háttar tafir. 

08.06.2013 15:05

Myndir

Var að setja inn myndir sem ég hef tekið undanfarin kvöld. 
Það hefur verið einstaklega fallegt að horfa til himins og sjá allan þennan fjölbreytileika í loftinu á þessum árstíma. 

21.05.2013 16:20

Út að hlaupa ;)

Skemmtileg frásögn.. stolin af Facebook:
Á flandri mínu um Facebook fyrr í kvöld rakst ég á enn eina myndina af einhverjum sem var úti að hlaupa. Ég náði að láta það fara soldið í taugarnar á mér þrátt fyrir að mér þyki Magnús einn af okkar betri mönnum. Svo hvarflaði það að mér, eins og annað slagið undanfarna mánuði, hvort ég ætti kannski að drulla mér sjálfur út að hlaupa? En nei, það er alltaf eitthvað sem stendur í veginum, ég á vitanlega enga skó eða föt í þetta og svo var ég nýbúinn að gúffa í mig einhverjum djöfuldómi af pastadrullu sem ég eldaði og drekkti í Hunt's-tómatjukki (jebb, einn heima) og var djöfull þungt í maga. Næst bara. Meira Facebook.

Nei andskotinn, hugsaði ég svo. Nú geri ég eitthvað! Átti ég ekki einhverjar ógeðslegar æfingabuxur inni í skáp? Ég lokaði Facebook (faldi gluggann bara, að sjálfsögðu lokaði ég því ekkert) og stormaði inn í herbergi. Í svartholi skápanna fann ég það sem ég leitaði að, flík sem ég skil ekki hvernig ég hef eignast. Næfurþunnar, svartar æfingabuxur með tveimur hvítum röndum á hliðunum. Þær eru með svona beinu sniði og aðeins of stuttar svo þær flaksast kjánalega þegar maður gengur og/eða hleypur. Og til að bæta gráu ofan á svart hefur hönnuðurinn ákveðið að það væri töff að bródera orðin "BETTER BODIES" neðst á vinstri skálmina. Fullkomið! Þarna var kominn hugur í mig og ég skellti mér í buxurnar. Babb í bátnum, engin reim, og þær gamlar og teygjulausar. Nú var ég kominn á það að hugsa frekar í lausnum en vandamálum. Í svartholinu fann ég það sem mig vantaði, svartan poka sem ég hef sennilega fengið fyrir að spila á einhverju tónlistarfestivalinu fullan af auglýsingavörum, merktur "Jägermeister", svartur með appelsínugulum reimum. Já, ekki ólíkur bláa Adidas-sundpokanum sem ég átti í æsku. Snipp, önnur reimin laus og hannyrðamaðurinn ég ekki lengi að þræða hana á sinn stað með harðfylgi og hárspennu.

Ég á engan jakka sem hentar til útihlaupa, leður- og gallajakkar eru víst ekki góðir til slíks. En ég á hettupeysur í bunkum. Ég valdi peysu sem ég nota aldrei, Skálmaldarpeysu sem var framleidd af útgáfufyrirtækinu okkar erlendis, skartar stóru Skálmaldar-logoi að framan og óskaplegri grafík með áletruninni "SANNIR ÍSLENSKIR VÍKINGAR" að aftan. Þeir töldu að þetta væri söluvænlegt ofan í útlendingana. Það reyndist alls ekki rétt. Og hvað á hausinn? Lopa- og þykkar prjónahúfur eru ekki sniðugar til útihlaupa en svartholið varð mér úti um Buff sem er þrælmerkt hvalaskoðunarfyrirtækinu Norðursiglingu sem ég hef unnið fyrir mörg undanfarin sumur. Buff eru allt annað en kúl en fyrst Flosi vinur minn gat verið með nákvæmlega eins óskapnað (sorry Norðursiglingarvinir mínir) um hálsinn á promo-myndatöku fyrir HAM þá lét ég þetta slæda.

Skór. Síðast þegar ég var á kenderíi heima hjá Hilmari vini mínum rak ég augun í skó í forstofunni sem ég kannaðist við. Brúnir íþróttaskór sem ég hafði keypt í bjartsýniskasti og týnt. Hvernig svo sem þeir enduðu á fótum Himma veit ég ekki alveg en hann var búinn að ganga á þeim allt norðausturlandið þvert og endilangt með hundinn sinn. Já eða hundurinn með hann sennilega. Hann fékk einhvern voðalegan móral og heimtaði að ég tæki þá aftur, sem ég gerði og hef ekki hugsað um þá síðan fyrr en nú. Gatslitnir og ógeðslegir eftir hundaheilsuræktina, en eftir smávægilegar reimahnýtingar og mátun bara hreint ekki svo slæmir. Síðasta vandamálið var svo vasaleysi og þess vegna enginn eðlilegur staður til að geyma húslyklana. Já og símann, því ég ætlaði alls ekki í þessa þolraun án þess að hafa Spotify með mér. Verkfræðingurinn í mér tók þetta á sig, svartur sokkur, táin af með Jägermeister-skærunum og hin nýja flík þrædd upp á úlflið vinstri handar. Þar undir þvældi ég svo lyklunum og símanum og fullkomnaði sköpunarverkið með svörtum prjónagrifflum frá mömmu.

Þar með var ég klár. Ég leit örsnöggt í spegilinn og sá að ég var asnalegur. Skíthallærislega merktur sjálfum mér, pínu feitur í asnalegum buxum, með fokking Buff á hausnum. Og ég skundaði út.

Ég vissi alveg hvert ég ætlaði að fara, ég er búinn að velta því svo djöfull oft fyrir mér undanfarið að drattast í þetta mál. Út að vitanum á Gróttu og til baka. Ég á heima á Seilugranda svo það er nú ekki langt að fara og ég einsetti mér að fara mér ekki um of. Ég valdi tónlistina, plötu sem ég hef ekki hlustað á mjög lengi, So Long and Thanks for All the Shoes með NOFX, og skottaðist af stað.

Lengi lifir í gömlum íþróttamannsglæðum og ég var bara frekar ánægður með mig svona framan af. Eftir fyrstu kannski 150 metrana fékk ég fyrsta verkinn, í vinstri sköflunginn. Minnti mig óþægilega á helvítis beinhimnubólguna sem maður barðist stanslaust við meðan maður æfði sem mest. En fjandinn hafi það, bráðabeinhimnubólga eftir örfá skref? Nei, varla. Ætli þetta hafi ekki frekar eitthvað með "BETTER BODIES" að gera? Og svo komu verkirnir hver á fætur öðrum. Lungun fundu auðvitað fyrir þessu um leið og Hunt's-sósan hóf fljótlega að leita upp vélindað með tilheyrandi sviða. Óafvitandi hífði ég axlirnar alveg upp undir eyru, pinnstífur og spenntur og þurfti að setja það á reglulegan reminder að slaka á þeim. Sá verkur sem var þó kannski mest stemningardrepandi kom mér á óvart. Ég er frekar vambstór orðinn og komst að því að tunnan á mér telur sennilega þónokkur kíló. Í hverju þunglamalegu skrefinu lyftist systemið í heilu lagi og við lendingu togaði Newton óskaplega í allt saman. Við þrálátar endurtekningar leið mér orðið eins og vömbin væri að rifna af festingunni. Í máttlausri tilraun til að berjast á móti virðist ég hafa spennt mína óvönu magavöðva óskaplega, og strax fyrir fyrstu labbpásu var ég orðinn logandi sár um mig miðjan, bæði að innan og utan.

Leiðina út að vita afgreiddi ég hlaupandi og gangandi á víxl. Ég gerði aðeins eitt stutt stopp til að freista þess að leysa vandamálið með hallærislegu buxnaskálmarnar og troða þeim ofan í sokkana. Skálmarnar voru hins vegar ekki nógu voldugar til þess að það gengi almennilega upp og svörtu herrasokkarnir úr H&M gerðu nú ekkert fyrir útlitið. Ég hefði sennilega átt að biðja svartholið um par af íþróttasokkum. Appelsínugula reimin toppaði síðan hallærislegheitin.

Sveittur og sár komst ég út að vita, stoppaði og teygði á.

Fyrir leiðina til baka skipti ég um tónlist og sá fram á að ég þyrfti eitthvað kröftugt til að halda í mér lífinu. Annað gamalt uppáháld, Clandestine með Entombed. Þrátt fyrir að vera þreyttur og sár var ég nokkuð góður með mig og skrifa ég það á gamalt keppnisskap. Ég ákvað fyrirfram að skipta leiðinni heim í þrennt - hlaup, labb, hlaup. Ég afgreiddi fyrsta hlutann af festu og hélt þónokkuð lengi út. Labbkaflinn var kærkominn en síðasta hlaupið varð mér næstum að aldurtila. Ég var með hausinn fullan af þungarokki og heyrði því ekki hljóðin í sjálfum mér, en af svip fólksins sem ég mætti að dæma hef ég sennilega blásið mjög ótæpilega. Og nú tók helvítið við. Síðustu nokkurhundruð metrana tók ég á reynslunni, starði á malbikið um 4 metra fyrir framan mig, hljóp í takt við Sinners Bleed (þvílíkt lag!) og reyndi að útiloka uppgjafar- og ógleðitilfinninguna. Og viti menn, ég hélt út. Örmagna studdist ég við vegginn á blokkinni minni, illt allstaðar en með sigurtilfinningu í hjarta, tilfinningu sem ég hef ekki fundið lengi. Eftir að hafa blásið helling og teygt á skrönglaðist ég upp stigana, réttum klukkutíma eftir að ég lagði af stað.

Nú sit ég í stofunni heima, í sloppnum sem ég erfði eftir pabba heitinn, nýbúinn í sturtu. Í hrúgu á gólfinu er útihlaupsgallinn minn, "BETTER BODIES", "SANNIR ÍSLENSKIR VÍKINGAR" og "NORÐURSIGLING", slitnar reimar og appelsínugular og þrír sokkar, þar af einn táklipptur. Pastarétturinn minn brennir mig að innan, ég er að drepast í löppinni, lungun eru svo sár að ég get ekki andað nema hálfa leið niður og mér líður eins og spikið hafi rifnað frá sixpakkinu sem vísast er þarna undir einhverstaðar. Í stuttu máli er ég úrvinda og sár eftir að hafa gert mig að fífli.

En hey, ég fór út að hlaupa.
 

30.03.2013 17:54

Myndir jan - mars 2013

Er að setja inn nýjar myndir sem flestar eru teknar hér í kringum húsið og út um stofugluggana. Þetta er fallegur árstími og einstaklega fallegt útsýnið héðan þessa vetrar mánuði þegar vel viðrar. Sérstaklega er himininn fallegur í sínum fjölbreytileika.  

17.10.2012 12:57

Sparperur og kvikasilfur

Hvorki má nota kúst né ryksugu á kvikasilfur

Sparperur innihalda kvikasilfur Mega ekki fara í ruslið

Sparperur Henda þarf ljósaperum í sérstök ílát á endurvinnslustöðvum.

Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is

Sparperurnar, sem taka nú við af gömlu glóperunum, innihalda kvikasilfur og því má alls ekki henda þeim beint í ruslafötuna. Kvikasilfur er hættulegt umhverfinu og heilsu manna og því flokkast perurnar sem spilliefni og skal skila þeim á endurvinnslustöðvar þar sem þær eru meðhöndlaðar á réttan hátt, segir á vef Umhverfisstofnunar, ust.is.

Í september síðastliðinn gekk í gildi reglugerð hjá aðildarríkjum EES sem bannar framleiðendum ljósapera að selja og dreifa glærum glóperum. Bannið kemur til vegna reglna um orkusparnað en sparperur eru sagðar nota allt að 80% minna rafmagn en glóperur. Glóperurnar verða þó í sölu eitthvað áfram hér á landi því verslanir mega tæma lagerinn sinn. Hægt er að velja á milli þriggja tegunda sparpera; halogen-, LED- og flúrpera, þær síðastnefndu innihalda kvikasilfur. 

Hætta af brotinni sparperu

Það eru að hámarki 5 mg (0,005 g) af kvikasilfri í hverri sparperu og ef hún brotnar losnar lítið magn af kvikasilfurögnum sem forðast þarf að anda að sér. Á ust.is má sjá leiðbeiningar um rétt viðbrögð við brotinni peru, einnig má lesa leiðbeiningar á vef IKEA.

Ef sparpera brotnar má ekki nota ryksugu því hún getur dreift kvikasilfurdropunum um loftið. Ekki má heldur nota kúst því hann getur dreift kvikasilfrinu enn meira um herbergið. Gluggi á herberginu þarf að vera opinn á meðan brotin eru þrifin upp. Skrapa á brotin upp með pappaspjaldi og nota svo límband eða blautan eldhúspappír til að ná upp smáu ögnunum. Setja á brotin í loftþétt ílát eins og glerkrukku eða frystipoka og skila inn sem spilliefni á næstu endurvinnslu- eða móttökustöð. »Til vonar og vara er gott að lofta vel út í 15 mínútur eftir þrifin og vera meðvitaður um að lofta aðeins aukalega næstu 14 dagana,« segir á ust.is. Ef peran er heit er hún brotnar er mælt með því að loka dyrunum að herberginu strax, opna glugga, yfirgefa það og sjá til þess að það sé tómt í 20-30 mínútur eftir brotið áður en byrjað er að þrífa.

Fyrir utan þessar upplýsingar á netinu hafa engar opinberar leiðbeiningar verið gefnar út hérlendis um meðhöndlun og förgun sparpera en samkvæmt upplýsingum frá Neytendastofu mun fara fram kynning á perunum og hvernig á að haga sér í kringum þær. 

Vekja fólk til vitundar

Hjá endurvinnslustöðvum Sorpu er merkt kar fyrir ljósaperur. Einnig er tekið við perum í raftækjaverslunum og hjá viðurkenndum móttökuaðilum spilliefna.

Það eru RR-skil: skilakerfi fyrir raf- og rafeindatækjaúrgang sem sér um endurvinnslu á ljósaperum. Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri RR-skila, segir að á öllum endurvinnslustöðvum sé sérstakt ílát fyrir perur. »Þær fara allar sömu leiðina, ofan í sérstaka tunnu þar sem þær eru maskaðar. Þá er kvikasilfrið sogað frá og málmar teknir frá. Glersallinn er urðaður. Það er alveg sama hvort um er að ræða gömlu glóperurnar eða flúrperur, vinnsluferlið er það sama.«

Sigurður segir að litlu hafi verið skilað af gömlu glóperunum á söfnunarstöðvar, þær virðist fara í ruslið á heimilunum. Aðallega séu það ljósrör, svokallaðar flúrperur, frá stofnunum og fyrirtækjum sem sé skilað inn, í þeim er kvikasilfur. Hann segir litla vakningu hafa verið fyrir því að setja ljósaperur í endurvinnslu en nú þegar sparperur með kvikasilfri taki alfarið við verði að vekja fólk til vitundar um að þær megi ekki fara með venjulegu heimilissorpi. »Það er hlutverk sveitafélagana samkvæmt lögum að koma þeim skilaboðum til fólks og annarra stjórnvalda.«

06.10.2012 23:42

Nýjar myndir

Er loks búin að setja inn myndir frá sumrinu.. 

Meðal annarra mynda eru myndir frá ættarmóti sem haldið var "Heim að Hólum" í júií.. 
Mig langar að biðja þá ættingja (og ekki ættingja) mína sem eru á myndunum að setja nöfn sín við myndirnar..

Ég þekki að vísu mörg ykkar með nafni, en ég vil heldur að þið setjið sjálf nöfn ykkar inn á síðuna, því að alltaf eru einhverjir sem eru ekki hrifnir af því að sjá nöfn sín á netinu.. 

Ég vil þakka nefndinni fyrir hennar störf og það var gaman að hafa mætt á ættarmótið þó ég sé svona "ská tengd" inn í þessa ætt.. 

Flettingar í dag: 1410
Gestir í dag: 174
Flettingar í gær: 62
Gestir í gær: 16
Samtals flettingar: 250818
Samtals gestir: 28639
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 08:56:19

Nafn:

Sigrún Jóhanna Þorsteinsdóttir

Afmælisdagur:

14. júní

Staðsetning:

Eyjafjörður

Faðir:

Þorsteinn Marinósson

Móðir:

Fjóla Kristín Jóhannsdóttir

Um:

Velkomin á síðuna mína.

Eldra efni

Tenglar