Hitabylgja er nú á norðanverðu landinu og hefur hitinn í dag farið hæst upp í 25 gráður í Eyjafirði, nánar tiltekið á Möðruvöllum í Hörgárdal, þar sem hitamælir sýndi 24,9 gráður. Á Akureyri mældist 24 stiga hiti, á Mánárbakka norðan Húsavíkur fór hitinn í 24,3 gráður og raunar hefur verið um og yfir 20 stiga hiti um allt Norðurland.
Óvenju hlýtt er á öllu landinu, miðað við að septembermánuður er genginn í garð. Veðurstöðvar á fjöllum og á hálendi hafa sýnt allt upp í 19 stiga hita, eins og á Mývatnsheiði, Vatnsskarði og Vaðlaheiði.
Á heimasíðu Veðurstofu Íslands má sjá að í Reykjavík mældust 16,4 gráður, í Stykkishólmi 17,6 gráður, á Bíldudal 19,2 gráður og á Blönduósi 21,4 gráður. Á Egilsstöðum voru 18 gráður, í Skaftafelli 20,7 gráður og á Hellu mældust 18,9 gráður.