Sigrún Jóhanna Þorsteinsdóttir

09.11.2008 15:21

Sumir Íslendingar!

Innistæðulaust oflæti.

ÞJÓNUSTUSTÚLKA á veitingahúsi á flugvellinum í Minneapolis sagði einu sinni við mig að hún þekkti alltaf úr Íslendingana í farþegahópunum á flugvellinum. »Þeir eru yfirleitt í merkjafötum, eins og Burberry og svo stika þeir áfram með nefið upp í loftið, eins og þeir eigi allan heiminn.« Jæja. Sic transit gloria mundi (þannig dvínar heimsins dýrð). Þessa dagana er þjóðin niðurlút og þeir sem eiga Burberry varning munu ef til vill reyna að selja hann á eBay í framtíðinni til að hafa upp í matarreikningana.

Ég hef búið í Bandaríkjunum meira eða minna í 15 ár og mér hefur allt fundist einkennilega
heillandi að fylgjast með íslensku neysluorgíunni, bæði úr fjarlægð og þegar ég er heima. Kannski var ég bara abbó að hafa ekki efni á Burberry nema því sem selt var á eBay, en upp úr aldamótum fór maður virkilega að klóra sér í hausnum yfir þenslunni á Íslandi - verslununum, nýbyggingunum og sýndarneyslunni (norski hagfræðingurinn Thorsten Veblen hefur áreiðanlega séð fram í tímann, til Íslands okkar tíma, þegar hann árið 1899 kom fram með hugtakið conspicuous consumption). Auðvitað náði þetta »góðæri,« eða réttara sagt þetta innistæðulausa oflæti ekki til allra. Almennt verkafólk og launafólk - eins og foreldrar mínir, opinberir starfsmenn í áratugi - var ekki að spjátra sig í Burberry. En svo margir virtust velta sér í peningum og fjölmiðlar fjölluðu mun meira um skattlausa útherjana á ofurlaunum og kokkteilpartíin þeirra heldur en um kjör launþeganna sem að mestu bera ábyrgðina á að greiða rekstrarkostnað íslensks samfélags.

Eitt sinn í Íslandsbankaútibúinu mínu (þegar ég skrifaði einu sinni að Glitnir væri »besti banki í heimi« var ég að tala um Brynjólf Gíslason og starfsfólk bankans í Gullinbrú) gat ég ekki orða bundist og spurði ráðgjafann, sem hafði unnið þar í mörg ár, um allan þennan vöxt. »Hvaðan koma peningarnir til að gera þetta allt?« - því ég er ein af þessum gamaldags týpum sem trúa að það hljóti eitthvað að þurfa að vera á bak við fullt af peningum, einhver verðmæti. »Elskan mín, þetta eru bara pappírar,« sagði hún. »Það er ekkert á bak við þetta; þetta hrynur allt saman eftir nokkur ár.«

Gamli sögukennarinn minn sagði að eftir seinni heimsstyrjöldina hefðu spekingar í bresku leyniþjónustunni sagt að Íslendingar myndu aldrei getað stjórnað sér sjálfir; að pólitíska valdastéttin á Íslandi væri svo upptekin af eigin hagsmunum og svo spillt af pólitískri innræktun að hún myndi aldrei hafa velferð þjóðarinnar að leiðarljósi. Ái! Bretarnir höfðu heldur betur rétt fyrir sér.

Það er óraunverulegt að horfa á ráðherrana í Sjálfstæðisflokknum og seðlabankastjóra blaðra í sjónvarpsfréttum um efnahagshrunið - þetta er fólkið sem færði fermingardrengjunum í Sjálfstæðisflokknum á silfurfati stofnanir í eigu almennings til að ræna þær og rupla og stinga svo af með gróðann úr landi, sama fólkið sem undanfarin ár hefur verið að skála við útrásarvíkingana í kokkteilboðum. Að þessir pólitíkusar skuli ekki hafa þá ögn af sóma til að segja af sér sýnir hversu fullkomið þeirra virðingarleysi er gagnvart íslenskum almenningi.

Núverandi ríkisstjórn ætti að segja af sér, boða ætti til nýrra kosninga og nýtt Alþingi ætti síðan að setja lög þess efnis að gera upptækar eignir íslensku fjárglæframannanna. Síðan þyrfti að ráða erlenda sérfræðinga, sem engra hagsmuna eiga að gæta á Íslandi, til að bjarga því sem bjargað verður, þar sem íslenskir stjórnmálamenn hafa sýnt að þeim er ekki treystandi fyrir tómum sparibauk.

Í leiðinni væri ráð að láta erlendu sérfræðingana skera niður yfirbygginguna í íslensku þjóðfélagi sem er slík að annað eins tíðkast hvergi á byggðu bóli. Seðlabankinn, - batterí sem hefði komist fyrir í skúffu í Landsbankanum fyrir nokkrum áratugum; ekki dugir minna en að hafa þrjá seðlabankastjóra. Þrjá! Ef við yfirfærum þetta á Bandaríkin myndi þeirra seðlabanki hafa níu þúsund seðlabankastjóra!

Eða utanríkisþjónustan, sem er að mestu leyti ofvaxin geirvarta fyrir pólitíkusa og vel tengda flokksmeðlimi. Þarf 300.000 manna þjóð virkilega að hafa 23 fulltrúa á launum í Bretlandi eða níu í París (þar af fimm ritara), eða fimm manns í Austurríki? Í Brussel eru a.m.k. 21 á launum; næstum öll íslensku ráðuneytin hafa sér fulltrúa þar. Er virkilega bráðnauðsynlegt fyrir félagsmála- eða menntamálaráðuneytið að hafa spes fulltrúa í Brussel? Allir þessir útpóstar hafa líka bílstjóra; greinilega er nauðsynlegt að hafa menn á fullum launum til að skutla mannskapnum á milli kokkteilteita.

Ekkert þjóðfélag, sérstaklega jafnlítið samfélag og Ísland, stendur undir svona bruðli. Íslenskir stjórnmálamenn hafa sagt að óhjákvæmilegt verði að skera niður ríkisútgjöld í kjölfar efnahagshrunsins. Þegar niðurskurðarhnífurinn verður mundaður ætti fyrst að flá þessar bruðlbyrðar af herðum íslenskra skattgreiðenda, sem um ókomin ár munu aðeins geta látið sig dreyma um erlendar flughafnir meðan þeir þrífa upp eftir græðgisfyllirí fjárglæframannanna og þeirra pólitísku hirðfífla.

Grein í Mogganum í dag eftir Írisi Erlingsdóttur.
Flettingar í dag: 618
Gestir í dag: 185
Flettingar í gær: 109
Gestir í gær: 24
Samtals flettingar: 235814
Samtals gestir: 26663
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 13:40:38

Nafn:

Sigrún Jóhanna Þorsteinsdóttir

Afmælisdagur:

14. júní

Staðsetning:

Eyjafjörður

Faðir:

Þorsteinn Marinósson

Móðir:

Fjóla Kristín Jóhannsdóttir

Um:

Velkomin á síðuna mína.

Eldra efni

Tenglar