Sigrún Jóhanna Þorsteinsdóttir

04.11.2008 00:15

Um kreppuna!!!

Smá dæmisaga vegna hinnar svokölluðu "kreppu"
Íslensk kona hefur verið að styrkja námsmann í Uganda sem "óvænt varð á
vegi hennar" eins og hún orðaði það. Hann var búinn að lofa að senda henni
einkunnirnar sínar sem hann og gerði þegar þar að kom. Þar kom fram að
hann hafði fengið A í öllum fögum og góða umsögn að auki. Það var
nefnilega búið að gera honum ljóst að góður árangur væri lykillinn að því
að hann fengi áframhaldandi styrk.

En allt er breytingum undirorpið í henni veröld og ýmislegt getur
vissulega haft áhrif á afkomu Frónbúans og getu hans til að láta gott af
sér leiða. Hún var að velta því fyrir sér hvort rétt væri að reyna að
segja honum frá gangi mála hér á landi, þ.e. kreppunni og öllu því. Og það
gæti því miður reynst nauðsynlegt að skera eitthvað niður styrkinn vegna
hins breytta ástands hérna megin. Það eru nefnilega tiltölulega litlar
líkur á því að fréttir af Íslenska skipbrotinu hafi borist alla leið til
hans þarna í Entebbe. Og svo er alls ekki víst að hann skilji alvöru
málsins á sama hátt og við hér heima. En ef reynt væri að útskýra hið
Íslenska kreppuástand fyrir honum sem virðist ætla að fara langt með að
sliga þjóðina einhver þó nokkur ár inn í framtíðina, gæti það samtal orðið
á eftirfarandi nótum.


*Heyrðu félagi, það er úr vöndu að ráða. Íslenska þjóðin er gjaldþrota!

Hvað segirðu, en leiðinlegt að heyra, eigið þið þá ekki fyrir baunum og
maís?

*Jú reyndar eru búðir fullar af mat og enginn vöruskortur.

Hvað segirðu, þið eigið þá mat. Það er gott. En eigið þiðþá ekki þak yfir
höfuðið lengur!

*Jú við eigum reyndar íbúð eins og flestir og það eru fáir heimilislausir
á Íslandi.

En hvað segirðu mér þá? Gengur plága yfir landið, eru allir veikir og
heilbrigðiskerfið lamað?

*Nei nei reyndar ekki, við fáum nánast ókeypis læknaþjónustu og erum með
ágætt heilbrigðiskerfi.

Nú jæja. Það var gott að heyra. En eru þá skólarnir að loka og fá kannski
ekki allir tækifæri til að læra að lesa lengur og sérstaklega þá ekki
konur.

*Jú reyndar er 99,9% læsi á Íslandi og menntakerfið er ágætt, margir með
háskólagráður og konur ekki síður en karlar.

Það er nú gott, en þið verðið þá að passa er að lenda ekki í stríði við
nágrannaþjóðir ykkar.

*Uuuu við erum reyndar ekki með her og teljumst nú frekar friðsæl þjóð. En
við þurfum bara að hlusta á bullið og stríðsyfirlýsingarnar í fíflinu
honum Gordon Brown. Það er það sem við munum líklega komst næst því að
fara í stríð.

Ok. Segðu mér nú samt ekki að þið komist ekki í hreint vatn.

*Við eigum reyndar besta vatn í heimi.

Nú, er vegakerfið þá ónýtt? Hérna í Afríku ganga allir eða nota asna og
stundum reiðhjól. Það eru líka til strætisvagnar hérna, en þeir eru alltaf
yfirfullir.

Eru kannski strætóarnir hjá ykkur hættir að ganga?

*Neeee... Það er verið að ræða um hvort almenningssamgöngur hér eigi að
vera ókeypis, en það eru flestallir vegir malbikaðir og næstum allir eru á
nýlegum bílum.

Eigið þið þá enga peninga til að gera ykkur glaðan dag? Ég meina, þú
sagðir að þjóðin væri gjaldþrota.

*Flestir eiga reyndar einhvern sparnað á bókum þó sumir hafi tapað honum
eða hluta hans síðustu daga. Það verður alla vega erfitt að kaupa stærri
flatskjái og utanlandsferðunum verður að fækka.

Já, ég á kannski einhvern tíma eftir að fara til útlanda, en ég er nú líka
frá Uganda. Hefur kannski enginn vinnu og þurfið þið núna öll að betla?

*Neiiij...! Atvinnuleysið er um 2% en við verðum að flytja Pólverjana
aftur heim og fara sjálf að vinna vinnuna sem þeir unnu.

Hmmm... Svo þið hafið peninga, mat, húsaskjól, heilbrigðiskerfi,
menntakerfi, búið við frið, eigið nóg hreint vatn og samgöngur eru góðar.

Segðu mér, hvert var vandamálið aftur?


Eftir þessar vangaveltur um aðstæður okkar hérna uppi á skerinu og þetta
ímyndaða samtal, ákvað hún að vera ekki að íþyngja honum með ræfilslegum
áhyggjum sínum af "gjaldþrota" eyríki norður í ballarhafi. Námsgjöld hans
skulu greidd hér eftir sem hingað til og kannski fær hann líka smá
vasapening með. Hann getur þá kannski tekið strætó í skólann endrum og
sinnum í stað þess að þurfa ganga í marga klukkutíma eins og venjulega. Fé
hins meinta íslenska terrorista yrði þá líklega bara vel varið.


Flettingar í dag: 971
Gestir í dag: 158
Flettingar í gær: 62
Gestir í gær: 16
Samtals flettingar: 250379
Samtals gestir: 28623
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 08:35:17

Nafn:

Sigrún Jóhanna Þorsteinsdóttir

Afmælisdagur:

14. júní

Staðsetning:

Eyjafjörður

Faðir:

Þorsteinn Marinósson

Móðir:

Fjóla Kristín Jóhannsdóttir

Um:

Velkomin á síðuna mína.

Eldra efni

Tenglar