Sigrún Jóhanna Þorsteinsdóttir

14.01.2008 00:02

Árið 2007


Það helsta sem gerðist árið 2007.

Amma mín Sigrún Guðbrandsdóttir varð 90 ára 1. janúar. Hún var búin að banna okkur að hafa veislu fyrir hana og ætlaði að láta sig hverfa og  vera að heiman. Seinna sagði hún mér að hún hafði ætlað að fara út á Árskógsströnd þar sem hún er fædd, og koma við í kirkjugarðinum hjá foreldrum, dóttur sinni og ömmu sem eru jarðsett þar.
En veðurspáin var ekki góð þennan dag og auk þess hafði Gunna komið norður og skipulagt smá kaffisamsæti hjá Ingu út í Skógarhlíð. Þar komum við nokkur saman og sú gamla fékk sér smá sérrí og lék á alls oddi og hafði gaman af.
Seinna sagði hún mér að hún hefði ekki viljað halda upp á afmælið vegna þess að hún þekkti svo marga sem höfðu dáið eftir afmælisveislu!!
Nema hvað, í mars þá veikist hún og lést þann 24. og var jarðsett 29. mars í Laufási.
Hún var samt svo heppin að fá að búa á heimili sínu þar til hún veiktist og fór á FSA og það var þessi sjálfstæða kona mjög ánægð með.

Fyrsti sólardagurinn var 13. janúar.  Nú árið  2008 skein sól á Akureyri 9. janúar.

Fórum á þorrablót hjá Flökkurum 20. jan. og skemmtum okkur vel.

Kvenfélagið Aldan-Voröld í Eyjafjarðarsveit réðst í það stórvirki að fara í utanlandsferð nr. 2.  Þar sem ég er í ferðanefnd þá fór töluverður tími í að skipuleggja þá ferð, en ég hafði gaman af því og héldum við til Tallinn í Eistlandi 30. mars og komum heim aftur 4.apríl. 
Samt ekki nógu snemma til að ég gæti farið út á Grenivík í 60 ára afmælisveislu móðurbróður míns, Badda í Áshóli og Anna Marý dótturdóttir mín varð 7 ára þennan dag.

Fúsi fékk leyfi til að fara með, því hann hefur tvisvar staðið í pönnukökubakstri fyrir félagið og ég held að hann langi bara til að teljast með í kvenfélaginu.

Þann 21. apríl hefðu foreldrar mínir átt 50 ára brúðkaupsafmæli og ég varð 50 ára 14. júní og hafði smá veislu þann 16.

Í júlí fórum við í Stóruferð Flakkara sem var þetta árið á Vestfirðina. Við fengum frábært veður og þar sem ég hafði ekki komið á flesta þessa staði áður, þá fannst mér það meiriháttar og útsýnið einstakt.
Myndir úr þessari ferð eru á síðunni undir F 215.

Síðari aðgerðin á augum mínum var gerð 1. ágúst og nú get ég lesið og fleira (með gleraugum) og er það mikill munur frá því sem var síðustu ár. Ég lenti svo með Ingu á Flúðum um verslunarmannahelgina og var það bara skemmtilegt.

Við skelltum okkur á Fiskidagana miklu á Dalvík 10. - 12. ágúst og dvöldum í nýja hjólhýsinu okkar í garðinum hjá Snjólaugu og Jóni.

Árshátíð Flakkara var haldin á Stóru-Tjörnum 15. sept.  Góður matur þar. 

21. sept. fór ég í mína fyrstu söluferð til Skagastrandar og það gekk bara nokkuð vel.

22. sept fórum við til Ingu og Inga í Innri-Njarðvík og haldið var upp á 4 ára afmæli Emblu Dísar, 50 ára afmæli Inga og svo hefði mamma orðið 70 ára. Auk þessa alls var haldið upp á það að Inga og Ingi eru flutt í nýja húsið sitt.
Myndir eru frá þessum atburði undir "Afmæli".

8. nóvember fór SM til Kaupmannahafnar og var haldin árshátíð þar í gömlu klaustri (sjá myndir).

6. desember voru litlu-jólin haldin í Öldunni-Voröld. Komum við saman hjá Vilborgu, áttum saman notalega kvöldstund og var maturinn fenginn frá Bautanum.

Þetta er það helsta sem ég get rifjað upp frá árinu 2007 og læt ég þessu lokið í bili.



Flettingar í dag: 844
Gestir í dag: 219
Flettingar í gær: 109
Gestir í gær: 24
Samtals flettingar: 236040
Samtals gestir: 26697
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 14:01:47

Nafn:

Sigrún Jóhanna Þorsteinsdóttir

Afmælisdagur:

14. júní

Staðsetning:

Eyjafjörður

Faðir:

Þorsteinn Marinósson

Móðir:

Fjóla Kristín Jóhannsdóttir

Um:

Velkomin á síðuna mína.

Eldra efni

Tenglar